154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[16:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil minna hv. þingmann á það að hér á landi eru greiddir hærri bankaskattar en í löndunum í kringum okkur. Hér kemur hv. þingmaður og segir „með fullri virðingu“, og apar síðan eftir mér í einhverjum tón það sem ég sagði og kyndir síðan undir það að ég vilji einfalda efnahagsreikning af því að ég vilji spillingardans fyrir mig eða mína, eða flokksfélaga mína. Ég veit hreinlega ekki hvernig ég á að svara því öðruvísi en svo að hv. þingmaður virðist ekki þekkja þá sem hér stendur neitt. Ég myndi vilja heyra hvað hv. þingmanni finnst um það hvort við ættum yfir höfuð að losa okkur undan einhverjum eignum sem ríkið á í dag. Þegar ég tala fyrir því að einfalda efnahagsreikning ríkissjóðs og ríkisins þá er það ekki eingöngu vegna þess að ég er þeirrar skoðunar og er hugmyndafræðilega þar stödd að það sem ríkið á að sinna eigi að vera skýrt og afmarkað og láta eigi aðra um annað, heldur er það líka vegna þess að ég horfi á þær áskoranir sem blasa við okkur, hvort sem það eru þær náttúruhamfarir sem þegar hafa orðið eða verða mögulega áfram, eða öldrun þjóðarinnar sem gerist nú hraðar en nokkru sinni fyrr og mun kalla á gríðarlega þung og mikil verkefni sem okkur þarf að farnast vel að sinna. Ég vil einfaldlega að við nýtum mannauð, fjármagn og kraft ríkisins og þeirra sem þar starfa í þau verkefni sem ríkið á að sinna. Hv. þingmaður kann að vera ósammála mér í því og það er allt í lagi. En ég er þeirrar skoðunar að við getum með ábyrgari hætti farið með almannafé og leiðin sé ekki að hækka skatta, hvorki til að mæta þessari aðgerð eða bara yfirleitt, enda greiðum við eina hæstu skatta í heimi og vandi ríkissjóðs er ekki tekjuvandi.