154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[16:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Skiljanlega þurfa að koma til ýmsar heimildir frá Alþingi til að geta ráðist í mikilvægar aðgerðir til handa Grindvíkingum sem hafa í rauninni gengið í gegnum slíkar og þvílíkar hamfarir að því verður eiginlega ekki með orðum lýst. Ég get eiginlega ekki ímyndað mér hversu hræðilegt það er að vera sviptur upp úr rúmi og þurfa að yfirgefa öryggi sitt, heimili sitt og vita í rauninni ekkert hvað um mann verður í kjölfarið. En það breytir ekki þeirri staðreynd að í þessu fjáraukalagafrumvarpi er kallað eftir frekari erlendum lántökum, heimild til þess að taka 30.000 millj. kr. erlend lán. Við erum þegar að greiða 117 milljarða á ári í vexti. Við í Flokki fólksins erum ekki hlynnt því að halda áfram að taka erlend lán, halda áfram að halda við verðbólgu með aukinni þenslu í efnahagskerfi okkar eins og þessi lántaka mun í rauninni valda, eðlilega, ef af verður.

Við í Flokki fólksins höfum komið með frumvarp eftir frumvarp um það hvernig við getum í raun og veru látið þá sem eru með alla vasa og allar hirslur fullar af fé taka meiri ábyrgð á samfélaginu með okkur og leggja meira í það. Það er skemmst frá því að segja að við í Flokki fólksins komum hér með frumvarp um breytingar á bankaskatti þar sem við óskuðum eftir því að hann verði færður ekki bara í fyrra horf, sem myndi reyndar gefa okkur á milli 10 og 12 milljarða kr. í auknar tekjur í ríkissjóð, heldur vildum við setja hann í 0,838%. Það er skemmst frá því að segja að engum alþingismanni fannst það nógu girnilegt að reyna að ná í einhverjar krónur úr yfirfullum hirslum bankanna, græðgisvæddu bankamaskínanna sem greiddu sér í hreinan gróða, hreinan hagnað, á árinu 2023 ríflega 100 milljarða kr. Að sjálfsögðu er algjörlega frábært ef vel gengur. En ef vel gengur og það sérstaklega á kostnað íslenskra fyrirtækja og íslensks almennings í þeirri stöðu sem hefur skapast hér með aukinni verðbólgu og brjálæðislega háum stýrivöxtum, með auknum og endalausum álögum á íslenska borgara — það er það sem málið snýst um, að halda áfram að beygja bognu bökin, halda áfram að sækja hverja krónu í vasa skattgreiðendanna, halda áfram að verja stórútgerðina, kvótakóngana. Hvað skyldi nú Arnarlax greiða fyrir aðganginn og mengunina fyrir vestan í laxeldinu sínu? Brotabrot af því t.d. sem þeir leggja inn í norskt samfélag fyrir að fá að nýta þetta fyrir nákvæmlega sömu atvinnugrein.

Við í Flokki fólksins höfum viljað koma með skattlagningu og ítrekað hef ég komið með það að lífeyrissjóðirnir fái ekki lengur að njóta undanþágu frá því að greiða staðgreiðslu af því sem við greiðum inn í lífeyrissjóðina þegar við gerum það. Þeir eru með undanþágu frá skattalögum, þeir halda eftir skattinum sem við hefðum annars greitt eins og við greiðum af öllu, af tekjunum okkar og hverju sem er. Við greiðum staðgreiðslu við innborgun en ekki lífeyrissjóðirnir. Sjóðir sem eiga á sjöunda þúsund milljarða kr., sjóðir sem gambla í rauninni með peningana okkar. Við höfum öll séð það þegar upp er staðið hvernig við fáum að njóta þeirra. Þeir sem hafa verið að vinna láglaunastörf í gegnum allt lífið og eru alltaf látnir greiða í lífeyrissjóð alla sína starfsævi uppskera afskaplega fáar krónur í lok dags þegar þeir vildu sannarlega fá að njóta þess að það væri ekki tekin nein staðgreiðsla akkúrat af útgreiðslunum úr lífeyrissjóði eins og er núna. Við skulum átta okkur á því að með því að afnema þessa undanþágureglu lífeyrissjóðanna myndi ríkissjóður fá, ekki í einskiptisaðgerð heldur á hverju einasta ári, um 70 milljarða til viðbótar.

Hverjir eru það sem eru aflögufærir? Er það íslenskur almenningur? Eru það íslensku heimilin eða litlu og meðalstóru fyrirtækin, þau sem eru í rauninni að bugast undan byrðinni sem er verið að leggja á þau núna í því ófremdarástandi sem ríkir í efnahagskerfinu? Að sjálfsögðu ekki. Þeir sem eru aflögufærir eru þeir sem vita ekki hvað þeir eiga að gera við peningana sína, sem eru búnir að fjárfesta í nánast öllu, bara landið og miðin eru einfaldlega komin í þeirra eigu og þeir reka það hér, eiga orðið meira og minna allt í samfélaginu. Það er orðið dapurt að horfa upp á það hvernig þessi ríkisstjórn er hreinlega að spila Matador, leyfir græðgispungum að spila Matador um allt það sem okkar er. Og það að kalla endalaust eftir því, ef eitthvað gengur vel, að við eigum að losa okkur við það og selja það fær mig til að velta því t.d. fyrir mér þegar leigt var húsnæði undir landlæknisembættið, minnir mig, á Seltjarnarnesi. Það var gerður 25 ára óafturkræfur leigusamningur við einhvern vin eða vandamann. Er það svoleiðis sem við viljum hafa það? Viljum við frekar leigja einhverja fasteign fyrir starfsemi ríkisins fyrir hundruð milljóna á ári eða viljum við borga þessi hundruð milljóna einu sinni og eignast þetta sjálf og reka sjálf og vera sjálfbær? Flokkur fólksins vill það skilyrðislaust. Við viljum það.

Ef það er eina lausnin sem þessi ríkisstjórn sér til þess að fjármagna þær aðgerðir og þá aðstoð sem á að veita Grindvíkingum, í þeirri erfiðu stöðu sem þeir búa við í dag, að auka á lántöku ríkissjóðs sem þegar er að greiða 117 milljarða í vexti — þessar tölur eru svo gígantískar að maður getur ekki eiginlega séð það fyrir sér. Ég veit ekki hvort það myndi fylla bara allan þennan sal af 5.000 eða 10.000 kr. búntum. 117.000 milljónir, við skulum átta okkur á því, 117 milljarðar í vexti af lántökum sem ríkissjóður verður að standa undir. 200 milljarðar voru teknir í viðbót út af Covid-aðgerðum og núna er verið að óska eftir því að geta tekið 30 milljarða í viðbót.

Við í Flokki fólksins erum ekki sammála því. Við munum ekki greiða þessum þætti í fjáraukalögunum okkar atkvæði, að færa í rauninni auknar álögur á samfélagið í heild sinni. Við viljum sækja peningana þangað sem allar hirslur eru fullar fjár. Það er bara þannig. Við skulum heldur ekki gleyma því, þegar ég tala um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóðina, að það eru ótrúlega margir fallnir frá áður en kemur að því að þeir nái að taka út úr lífeyrissjóðnum og nýta sér þau réttindi sem þeir hafa verið að safna upp á starfsævinni.

Það er sárara en tárum taki hreinlega, herra forseti, að einu lausnirnar eru alltaf þessar; að vernda í rauninni peningaöflin, nákvæmlega eins og var gert í efnahagshruninu 2008 þar sem átti að reisa skjaldborg um heimilin en 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín. En það var reist skjaldborg um fjármálaöflin. Það var það sem þurfti að vernda, fjármálaöflin, það þurfti að passa þau, græðgismaskínuna. Það þurfti að passa þau. Það þurfti að greiða milljarða í SpKef. Það þurfti að greiða milljarða í Sjóvá almannatryggingafélag. Á meðan var verið að bjóða upp heimilin af fjölskyldunum í landinu.

Við í Flokki fólksins fordæmum slíka stjórnunarhætti. Við fordæmum stjórnvöld sem sjá aldrei úr augunum út öðruvísi heldur en að ráðast á almenning, heimilin í landinu, lítil og meðalstór fyrirtæki og setja allar byrðarnar þangað. Við í Flokki fólksins segjum einfaldlega: Sækjum fjármagnið þar sem það er fyrir og hikum ekki við það. 30 milljarða í bankaskatt strax, herra forseti. Það er það sem Flokkur fólksins hefur kallað eftir og hefur mælt fyrir frumvarpi þess efnis.

Það eru ýmis spil til í spilastokknum önnur en þau að ráðast að innviðunum og ráðast að þeim sem eiga um sárt að binda og ná ekki endum saman og vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér í öllu þessu ótrúlega okurvaxtasamfélagi sem við búum við í dag þar sem fólk hefur í rauninni á einni nóttu lent í snjóflóði sem verður þess valdandi að það verður margföldun á afborgunum af lánum þess. Bara sem dæmi fór afborgun af láninu mínu úr 184.000 kr. á mánuði í 460.000 kr. á mánuði. Það var óverðtryggt lán með föstum breytilegum vöxtum. Ég get staðið undir því í einhvern tíma en ég get alveg staðið við það og sagt það hér og nú: Það þarf að vera með ansi góðar tekjur ef fólk á ekki að missa heimili sín í þeirri stefnu sem er rekin af þessari vanhæfu ríkisstjórn.