154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[18:00]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Réttur hins almenna borgara til að lifa og starfa án eftirlits hins opinbera er ótvíræður. Ég hefði vonað að flestum okkar hér inni og úti í samfélaginu væri annt um að þannig verði samfélagið okkar áfram, að hinn almenni borgari fái að lifa og starfa án eftirlits hins opinbera. En því miður eru ekki allir hérna inni þeirrar skoðunar vegna þess að nú er dómsmálaráðherra enn einu sinni, dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, að reyna að koma í gegn auknum heimildum fyrir lögreglu til að rannsaka fólk sem hefur ekkert brotið af sér og sem er ekki einu sinni grunað um að hafa brotið af sér. Auðvitað eru til aðstæður þar sem slíkar rannsóknir geta komið í veg fyrir alvarleg brot en án sjálfstæðs eftirlits með heimildunum eru miklar líkur á misnotkun og brotum gegn þeim sem sæta njósnum.

Það skiptir máli að við áttum okkur á hvað felst í sjálfstæðu eftirliti. Með því meina ég embætti sem hefur sjálfstæðar rannsóknarheimildir. Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefur það ekki. Nefndin getur kallað eftir upplýsingum, hún getur gefið álit en hún hefur engin raunveruleg völd. Það þarf að vísa öllu refsiverðu til saksóknara, sem er ekki sjálfstæður og óháður lögreglu.

Það er mikið talað hér um að afbrotavarnir okkar hér á Íslandi, hjá lögreglunni á Íslandi, séu ekki jafn góðar og afbrotavarnir annarra Norðurlanda en öll hin Norðurlöndin eru með þetta sjálfstæða eftirlit. Þar eru líka ríkar skyldur gagnvart borgurum þegar kemur að gagnsæi og getu þeirra til að fá upplýsingar um það eftirlit sem þeir hafa þurft að sæta. Þetta höfum við ekki, forseti.

Strax með 1. gr. frumvarpsins vakna efasemdir um ágæti þessa máls; ný skilgreining á rannsóknar- og greiningardeild ríkislögreglustjóra þar sem henni er ætlað að sinna upplýsingaöflun og greiningum, leggja mat á hættu á hryðjuverkum og líka koma í veg fyrir og rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins. Það býður upp á að deildin ofselji þær ógnir sem að landinu steðja. Slíkt er mun auðveldara þegar ytra eftirlit er lítið sem ekkert. Það ætti að vera öllum ljóst að eftirlit með greiningardeild ríkislögreglustjóra, t.d. með því að leggja mat á hættuna á hryðjuverkum, þarf að koma utan frá. Það er bara þannig sem er hægt að tryggja að valdheimildir séu ekki misnotaðar.

Forseti. Frumvarpinu er ætlað að festa í lög núverandi óformlegan stýrihóp lögreglu sem hefur það hlutverk að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi og efla samvinnu og upplýsingaskipti á milli lögregluembætta. Eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins er þessi stýrihópur nú þegar til en stefnt er að því að lögfesta hann og veita honum hlutverk sem kemur að forvirkum rannsóknarheimildum eða afbrotavörnum eins og ráðherra talar um þetta. En þá vakna upp fjölmargar spurningar. Hverju hefur þessi stýrihópur skilað síðan hann var settur á laggirnar? Hvernig hefur hann bætt löggæslu á Íslandi? Í greinargerðinni kemur einnig fram að ríkissaksóknara hafi verið falið að semja reglur um starfsemi hópsins. Hvert er hlutverk stýrihópsins í þessum reglum? Hvað mun breytast við að lögfesta tilvist stýrihópsins?

Stýrihópurinn á samkvæmt b-lið 6. gr. frumvarpsins að taka við tilkynningum þess efnis að lögregla sé að afla upplýsinga um aðila sem talinn er vera viðloðandi skipulagða brotastarfsemi. Lögreglustjóranum sem tekur ákvörðun um að setja af stað slíkt eftirlit ber að tilkynna það til stýrihópsins innan þriggja daga, ekki strax heldur innan þriggja daga. Þetta ákvæði er meingallað. Hvergi er tekið fram hvað gerist ef lögreglustjóri ber ákvörðunina upp við stýrihópinn og stýrihópurinn telur lögreglustjóra hafa farið offari. Hvað gerist þá? Einnig á stýrihópurinn að staðfesta notkun þessa úrræðis ef upplýsingaöflun lögreglu stendur lengur yfir en 12 vikur. Aftur er ekkert tekið fram um hvað muni gerast ef stýrihópurinn er ósammála lögreglustjóra.

Þetta ákvæði er ekki bara gallað, forseti, heldur líka ónauðsynlegt. Á Íslandi búum við við fullþroskað kerfi embættismanna þar sem lögregla getur fengið staðfestingu á ákvörðunum sínum. Það kerfi heitir dómstólar. Því hefur verið fleygt fram að lögregla geti ekki beðið eftir úrskurði dómara þegar svona liggur undir. Gott og vel. En það er alltaf dómari á sólarhringsvakt sem getur brugðist strax við ef erindið er áríðandi. A.m.k. væri alveg ljóst hvað myndi gerast ef dómstólar væru ósammála lögreglustjóra. Aðgerðum yrði hætt tafarlaust.

Þessi stýrihópur, forseti, er algjörlega óþörf samþjöppun valds í málaflokki sem þarf að vera hafinn yfir allan vafa. Eftirlit með forvirkum rannsóknarheimildum, afsakið, forseti, með afbrotavörnum, getur ekki verið á forræði þeirra sem valdið hafa. Það getur ekki verið þannig.

Forseti. Að lokum langar mig að ræða það sem mun koma til með að skipta máli í eftirliti með forvirkum rannsóknarheimildum og það er fjármagn. Í greinargerð frumvarpsins segir að aukið fjármagn muni þurfa til að láta það fram ganga. Tveimur nefndarmönnum verði bætt við nefnd um eftirlit með lögreglu ásamt einum starfsmanni og starf gæðastjóra lögreglu verði sett á laggirnar. Fjármögnun þurfi að fara fram með því að til komi nýjar fjárheimildir við gerð fjármálaáætlunar og við 2. umræðu fjárlaga eða, og hér er það sem ég hræðist að verði raunin, með breyttri forgangsröðun fjárheimilda innan löggæslunnar. Með öðrum orðum að fækka enn frekar almennum lögreglumönnum og/eða rannsóknarlögreglumönnum til að auka eftirlit með fólki.

Forseti. Á fundum okkar Pírata með lögreglumönnum sem vinna í almennri löggæslu hefur komið fram að öll gæluverkefni stjórnvalda síðastliðin ár hafi verið blóðtaka fyrir hina almennu löggæslu. Alltaf verða færri og færri eftir til að sinna hinni almennu löggæslu. Við verðum að passa upp á það í þessu máli að það verði ekki raunin.

Forseti. Einn þáttur í grunnstefnu Pírata snýr að friðhelgi einkalífsins. Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri. Þetta frumvarp sem við ræðum hér, frumvarp sem kemur úr viðjum sjálfskipaðra boðbera frelsisins, sviptir almenna borgara friðhelgi einkalífs í þeim meinta tilgangi að tryggja öruggara samfélag. En það er vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri sem tryggir okkur einmitt þetta öryggi. Þessu má ekki snúa á haus, forseti. Við megum ekki grafa undan réttindum almennings til að bæta upp langvarandi fjársvelti lögreglunnar því það er í raun og veru kjarninn í þessu. Við erum búin að fjársvelta lögregluna. Þar af leiðandi er verið að grípa til aðgerða til að reyna að bæta upp fyrir það. Ef við værum hér að afgreiða frumvarp um að efla lögregluna með auknum mannafla, menntun og þekkingu þá stæði ég hér fagnandi, forseti. En ég get ekki fagnað þeirri hættulegu skammsýni sem birtist í þessu frumvarpi og þeirri gegndarlausu vanvirðingu gagnvart því frjálsa samfélagi sem við höfum lagt okkur fram um að byggja hér upp.