154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[18:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Það eru nokkur atriði sem mér finnst eðlilegt að draga fram. Hv. þingmanni er tíðrætt um að hér þurfi sjálfstæð stofnun að koma til og nefnir í því sambandi Danmörku. Eftirlit sem þar er haft með borgurum er miklu víðtækara en er verið að kalla eftir með þessu frumvarpi. Ég vil minna þingheim á að á Norðurlöndunum eru leyniþjónustur starfandi sem er ekki hér á Íslandi þannig að það er ekki óeðlilegt að eftirlitið sé með öðrum hætti á Norðurlöndunum en hér er. Til samanburðar þá yrði gríðarlega kostnaðarsamt og má segja flókið að koma upp þannig stofnun hér á landi. Í Danmörku er fjöldi mála um 3.200 á ári á meðan málin hér eru 120–150. Þar af eru mjög fá, eða kannski 30, sem varða meinta refsiverða háttsemi.

Ég vil líka minna á, eins og kom fram í ræðu minni hér fyrr í dag, að frumvarpið hefur tekið breytingum frá því að það var lagt fram á síðasta löggjafarþingi, töluverðum breytingum. Það var í samræmi við athugasemdir sem komu í meðförum þingnefndar á síðasta þingi. Það er m.a. stofnun embættis gæðastjóra lögreglu og það er alveg ljóst að gæðastjóri á að tryggja að lögregla fylgi þessu verklagi sem og skráningum og öðru sem hv. þingmaður hefur hér gert athugasemdir við.