154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[18:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að hv. þm. Halldóra Mogensen hafa komið ágætlega inn á svarið við þessari mjög afmörkuðu spurningu sem hv. þingmaður kom með um að geta brugðist við ábendingum frá erlendum löggæsluyfirvöldum. Ég held að það sé hægt að uppfylla þá þörf sem lögreglan hefur bent á að sé til staðar. Ég hef ekki enn þá fengið skýrt nákvæmlega hvar í lögunum henni er bannað að bregðast við. En ókei, gefum okkur að það sé bara algerlega rétt, það vanti þetta. Þá held ég að það sé hægt að afmarka það ákvæði þannig að lögreglunni sé heimilt að fylgja eftir ábendingum frá erlendum löggæsluyfirvöldum því að þá gætum við sagt að það séu kannski sæmilega áreiðanlegar upplýsingar. En við vitum ekkert hverjar þessar áreiðanlegu upplýsingar eru sem er verið að vísa í í frumvarpinu. Hér er vísað í eitt afmarkað dæmi en þetta á við um miklu stærra mengi en það. Það er það sem ég geld varhuga við. Ég segi að þetta sé ekki tímabært og nú held ég að ég neyðist til að taka dæmi vegna þess að mér finnst þetta ekki komast til skila. Þetta er eins og að þú gefir barni dót og það brýtur alltaf dótið og svo biður það um meira og meira og vill fá stærra dót og þú ætlar að láta það fá bara nýtt án þess að það hætti að brjóta allt dótið sitt. Það sér hver maður að þú ert að fara að tapa endalausum peningum á því að ala barnið þannig upp.

Einhvern veginn þarf fyrst að stoppa í gatið sem er að lögreglan ber ekki virðingu fyrir því að það á að hafa eftirlit með störfum hennar. Þarna erum við að tala um mjög íþyngjandi aðgerðir sem lögreglan er að beita og hún ber ekki virðingu fyrir því að það á að hafa eftirlit með þeim aðgerðum, það á að fylgjast með því hvernig þeim er beitt, það á að passa upp á að eyða gögnum, það á að passa upp á aðgengi að þessum gögnum. Það er ekki gert. Ríkissaksóknari bendir endurtekið á að það sé ekki gert. Lögreglan passar ekki upp á þessar ótrúlega viðkvæmar upplýsingar, myndbönd, upptökur af símtölum milli fólks sem hún kemst yfir út af sínum eftirlitsheimildum. Af hverju á ég að láta hana fá fleiri eftirlitsheimildir, burt séð frá eðli þeirra, ef hún getur ekki passað upp á þær sem hún hefur nú þegar? Það þarf að ávinna sér traust gagnvart þessu áður en við réttum handlegginn lengra og kaupum meira dót.