154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[18:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég og hv. þingmaður erum greinilega að nálgast þetta efni út frá sitthvorum pólnum. Ég ber traust til lögreglunnar. Ég held að lögreglan á Íslandi sé almennt að standa sig mjög vel, hún sé að sinna erfiðum verkefnum við erfiðar aðstæður og fari almennt mjög vel með sínar heimildir þótt ég taki undir það að þegar bent er á að eitthvað hafi farið úrskeiðis þá eigum við að laga það. Lögreglan kom einmitt fram í umfjöllun um þetta frumvarp síðast og sagði: Vitið þið hversu mikið eftirlit er haft með okkur? Við erum auðvitað með búkmyndavélar og það er birt og svo er nefnd um eftirlit með lögreglu og svo er það héraðssaksóknari og ýmislegt þess háttar. En mér finnst alveg rétt að þegar einhver starfsstétt hefur heimildir til að beita einhvers konar þvingunarúrræðum þá þarf að hafa eftirlit með því. Lögreglan sjálf hefur meira að segja oft kallað eftir því að það sé skýrt og greinilegt og allir vilja hafa þannig. Og bara til þess að forðast allar sögusagnir þá hef ég engar heimildir um það að kúrdíski refurinn sé að koma til Íslands eða hafi einhvern tíma komið til Íslands, þetta var algerlega uppspunnið dæmi.

Við föllum alltaf í þá gryfju þegar við ræðum þetta hérna að vera farin að tala um einhver þvingunarúrræði eins og hleranir eða myndavélaupptökur eða eitthvað slíkt. En það er ekki það sem við erum að ræða hér. (Gripið fram í: Jú.) Ég held að það sé ágætisábending sem hv. þingmaður kemur inn á, hvort ábendingar séu áreiðanlegar upplýsingar. Ef það er ekki nægilega skýrt þá er það eitthvað sem við þurfum að taka til okkar í nefndinni og fara sérstaklega yfir. En ég var að nefna eitt dæmi, ábendingar frá erlendum löggæsluyfirvöldum. Þetta er eitt af því sem lögreglan benti á síðast, að hana skorti heimildir til að bregðast við slíkum ábendingum þegar ekki er um að ræða einhvern grun um afbrot þannig að ekki er hægt að nota sakamálalögin og biðja dómara um að veita einhverjar slíkar heimildir. Ef það er slíkur grunur þá er að sjálfsögðu farin sú leið. En oft snýst þetta bara um einhverja almenna vitneskju, að einhverjir aðilar sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi séu að koma til landsins eða séu að taka þátt í einhverjum viðburðum eða annað og hvort það sé þá eðlilegt að lögreglan sé á staðnum og með augun opin. (Forseti hringir.) Fyrir mitt leyti þá segi ég já. En ég vona svo sannarlega að við komumst (Forseti hringir.) frekar yfir þetta mál inn í allsherjar- og menntamálanefnd og getum sammælst um það hvað nákvæmlega er verið að ræða og hvaða heimildir er verið að veita.