154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[18:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það ekki þannig að ég vantreysti lögreglunni almennt og yfirleitt. Ég vil bara halda því til haga að ég tel að lögreglumenn reyni alltaf að vinna sína vinnu af kostgæfni og heiðarleika. Það breytir því ekki sem ég er að benda á og það er að lögreglan hefur nú þegar mjög víðtækar eftirlitsheimildir og hún er ekki að sæta því eftirliti sem hún á að sæta gagnvart þeim eftirlitsheimildum. Þannig að áður en við förum að tala um að rétta henni fleiri eftirlitsheimildir þá þarf hún að vinna sér inn traust gagnvart því að hún sé til í að sæta eftirliti vegna þessara eftirlitsheimilda. Ríkissaksóknari er búinn að benda á þetta síðan 2017, í sjö ár, frá því að lögin voru sett. Lögreglan fékk 150 millj. kr. til að fjárfesta í tækjabúnaðinum sem hún þurfti til að ríkissaksóknari gæti fylgst með og það er samt ekki búið að gera þetta og ríkissaksóknari er búinn að skrifa bréf eftir bréf og segja: Ég verð að fá að fylgjast með því hvort lögreglan sé hlera borgarana rétt eða ekki, hvort hún sé að leyfa óviðkomandi að fylgjast með upptökum heiman frá fólki eða símtölum á milli aðila. Það er ekkert sem hún getur gert til að tryggja að það sé farið eftir þessum reglum. En nei, við skulum láta lögregluna fá heimildir til þess einmitt að fylgjast með eftirlitsmyndavélum í rauntíma eins og við erum að gera með þessu frumvarpi. Upptökum af fólki í rauntíma, safna þeim í gagnagrunn og nota til greininga og afbrotavarna án þess að tryggja að lögreglan sæti öðru eftirliti sem henni ber lögum samkvæmt að sæta og eftir að hafa leyft því að viðgangast í sjö ár að lögreglan sæti ekki því eftirliti sem hún á að sæta. Af hverju á ég að treysta hæstv. dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins fyrir því að gefa lögreglunni fleiri heimildir ef hún er ekki tilbúin að tryggja það að lögreglan sæti a.m.k. því eftirliti sem hún á að sæta núna samkvæmt lögum? Ég skil ekki hvað er svona flókið við þetta. Ég bara skil það ekki. Þetta er ótrúlega einfalt. Það er fáránlegt, virðulegi forseti, að dómsmálaráðherra hafi bara leyft því að viðgangast í sjö ár að lögreglan segi bara: Ég er bara ekki til í að sæta þessu eftirliti ríkissaksóknara. En við skulum gefa þeim fleiri heimildir, endilega. Þetta er nú meiri vitleysan.