lögreglulög.
Frú forseti. Ég vil byrja á að segja að ég fagna þessu frumvarpi til að styrkja rannsóknir á skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Við verðum að hafa það í huga að öryggismálaumhverfið í Evrópu hefur gerbreyst eftir innrás Rússa í Úkraínu. Við þekkjum það öll. Hér hefur mikið verið rætt af hálfu Pírata um eftirlit með lögreglu og jú, vissulega er það þannig að allar auknar heimildir þurfa aukið eftirlit. Ég tek alveg undir það og lögreglan vill fá sem mest og best eftirlit þannig að ég hef ekki áhyggjur af þeim þætti þessa máls. Höfum í huga að það eru ríkir almannahagsmunir til að vernda borgarana í þessu landi og tryggja almannaöryggi. Við búum í réttarríki. Ég verð, frú forseti, að mótmæla því sem hefur komið fram hér í stóryrðum Pírata þegar þeir segja að hér sé verið að svipta borgarana friðhelgi og þetta frumvarp sé gegndarlaus vanvirðing. Ég segi bara, frú forseti, að ég skil ekki á hvaða vegferð Píratar eru í þessu máli. Þeir vilja kannski ekki búa í réttarríki. Það er kannski kjarni málsins hjá þeim.
Höfum það í huga að við erum ekki með her, við erum ekki með vopnaða lögreglu og við erum eina þjóðin sem er ekki með leyniþjónustu. Þetta hefur komið fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra. Við höfum hins vegar komist langt á traustinu gagnvart öðrum Norðurlöndum þegar kemur að upplýsingaöfluninni en við getum ekki endalaust gengið út frá því að við fáum þær upplýsingar sem við þurfum frá þeim. Við þurfum að sýna eitthvað í staðinn, að við séum að auka heimildir sem tryggja að við getum stundað þessa upplýsingaöflun að einhverju leyti sjálf. Hér er um að ræða auknar heimildir í raun og veru bara í tveimur málaflokkum, þ.e. skipulagðri glæpastarfsemi og svo hjá greiningardeildinni. Það er verið að setja greiningardeildina inn í lögin sem gerir hana þá aðgengilegri og gagnsærri og það er mjög mikilvægt. Ef við erum sem sagt ekki með staðfestan grun þá getum við viðhaft ákveðið eftirlit, byggt á upplýsingum. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, fór vel yfir nauðsyn þess að geta fylgst með einstaklingi sem er þekktur fyrir glæpastarfsemi erlendis og kemur til landsins, hvort hann sé að undirbúa slíka glæpi eða hryðjuverk þess vegna hér á landi. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór vel yfir það hér áðan í sínu dæmi og ég tek heils hugar undir mikilvægi þessa.
Ég verð að segja það, frú forseti, að við verðum líka að hafa það í huga að hér á Íslandi er tækni sem er framleidd sem við þurfum að vernda þegar kemur að upplýsingaöflun erlendra aðila. Það er í sjávarútveginum, það er í jarðhitanum og mikilvægt að við áttum okkur á því að við Íslendingar eigum líka verðmæti sem aðrar þjóðir gætu sóst eftir með t.d. njósnastarfsemi, svo ég nefni það hér.
Ég vil aðeins koma inn á samanburð við Norðurlöndin. Ég held að það sé mikilvægt að það komi hér fram að þróunin annars staðar á Norðurlöndunum hvað varðar skipulagða brotastarfsemi og vopnabeitingu hefur verið ískyggileg, það er nú einu sinni þannig, og þróunin hér á landi fylgir hratt í kjölfarið. Á Íslandi er skipulögð brotastarfsemi að aukast eins og víða annars staðar og við vitum það líka að slík starfsemi virðir ekki landamæri og umdæmamörk, svo það komi skýrt fram. Lögregluyfirvöld á Íslandi hafa síðastliðið ár varað við þeirri þróun sem hefur átt sér stað og fylgst náið með þróuninni á Norðurlöndum hvað þetta varðar og áhættan vegna skipulagðrar brotastarfsemi telst vera mjög mikil á Íslandi samkvæmt skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Við verðum að hafa þetta í huga, frú forseti, það er aukning á þessari starfsemi, það er áhætta, og ríkislögreglustjóri hefur sýnt fram á það í sínum greiningum og skýrslum. Við verðum að taka þessar upplýsingar alvarlega. Auk þess erum við að horfa á verulega aukningu í innflutningi á fíkniefnum á síðustu árum og svo teygir skipulögð glæpastarfsemi sig til ýmissa anga þjóðfélagsins með tilheyrandi tjóni fyrir einstaklinga, fyrirtæki og hið opinbera. Mörg þeirra mála sem koma upp á Íslandi varða hagnýtingu skipulagðra brotahópa á fólki í viðkvæmri stöðu, t.d. í fíkniefnasmygli og mansali, þannig að við verðum að horfast í augu við þennan veruleika og þess vegna er þetta frumvarp afar mikilvægt.
Undanfarin misseri hefur á Íslandi orðið umtalsverð fjölgun brota þar sem hnífum er beitt og vopnatilkynningum til lögreglu hefur fjölgað verulega. Við sáum nú bara fréttir af hnífaárás í þessari viku. Þessi aukning er orðin töluvert mikil á mjög skömmum tíma og það er hægt að styðjast við meðaltölfræði í þeim efnum frá lögreglunni. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hefur alvarlegum ofbeldisbrotum og vopnuðum útköllum lögreglu og sérsveitar ríkislögreglustjóra fjölgað verulega síðustu ár.
Möguleikar hinna Norðurlandanna til að bregðast við skipulagðri brotastarfsemi, hryðjuverkum og ógn við öryggi ríkisins eru margvíslegir. Ef við tökum dæmi og horfum bara til herafla þá eru öll önnur Norðurlönd með umsvifamikinn herafla sem greinir hættur og vinnur skipulega að því að vernda öryggi ríkisins. Þessu er ekki til að dreifa hér eins og við þekkjum. Á Norðurlöndunum eru reknar leyniþjónustur sem hafa nokkuð víðtækt svigrúm til að rannsaka og afla gagna um hvaðeina sem gæti ógnað öryggi ríkisins. Ísland er ekki með leyniþjónustu eins og við þekkjum. Öflugar greiningardeildir eru starfræktar hjá lögreglu og öryggisþjónustu annarra Norðurlanda sem gegna mikilvægu hlutverki í því að draga úr skipulagðri brotastarfsemi. Ísland er ekki með greiningardeild sem hefur forvirkar rannsóknarheimildir. Það er rétt að taka það fram að þetta frumvarp fjallar ekki um forvirkar rannsóknarheimildir, svo það komi skýrt fram hér. Forvirkar rannsóknarheimildir fela í sér þvingunarráðstafanir gagnvart einstaklingum, svo sem hleranir og haldlagningar, þegar þær ráðstafanir byggjast ekki á sakamálalögum, bara svo því sé haldið til haga.
Þær heimildir sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru í efnislegu samræmi við þær heimildir sem lögreglan annars staðar á Norðurlöndum hefur yfir að ráða og sæta aðgerðir sem á þeim byggja sams konar skilyrðum um beitingu þeirra. Þetta frumvarp er nauðsynlegt, ekki síst hér og nú vegna þess að það er breytt afbrotamynstur og aukin hætta á hryðjuverkum og útbreiðsla skipulagðrar og alþjóðlegrar brotastarfsemi krefst þess að lögregluyfirvöld geti brugðist við og gripið til aðgerða áður en einstök brot eru framin. Hópar innlendra jafnt sem erlendra aðila hafa það orðið að atvinnu að fremja afbrot með skipulögðum hætti, þar á meðal þjófnað, fjársvik, fíkniefnabrot og peningaþvætti. Við erum sem sagt hér að veita lögreglunni skýra heimild til að hafa eftirlit á almannafæri, háð ströngum takmörkunum.
Markmið frumvarpsins er að skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða á sviði afbrotavarna til að stýra brotum eða stöðva þau. Heimildirnar varða almennar afbrotavarnir, afbrot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi og afbrot eða athafnir sem raskað geta öryggi borgaranna og ríkisins. Með aðgerðunum er einna helst átt við heimild lögreglu til að safna og vinna upplýsingar í afbrotavarnaskyni og viðhafa tiltekið eftirlit á almannafæri með fólki og stöðum til að koma í veg fyrir afbrot en háð ströngum takmörkunum. Frumvarpið mælir fyrir um heimild lögreglu til að nýta upplýsingar sem hún býr yfir og aflar til greiningar í þágu afbrotavarna.
Hér hefur verið rætt um að lögreglan hafi þegar heimildir til að hlera og skyggja fólk eða leita í húsum. Því er til að svara að hleranir og skygging og húsleit eru fyrst og fremst aðgerðir sem lögreglu er heimilt að beita þegar fyrir liggur grunur um lögbrot eða refsiverðan vettvang. Þetta snýr að sakamálalöggjöfinni, við verðum að hafa það skýrt. Það þarf að gera skýran greinarmun á þeim aðgerðum sem lögreglu er heimilt að grípa til á grundvelli lögreglulaga og þeim rannsóknaraðgerðum sem heimilar eru á grundvelli sakamálalaga. Það er mjög mikilvægt að rugla þessu ekki saman í þessari umræðu. Hafi lögregla áreiðanlegar upplýsingar um að tiltekinn einstaklingur taki virkan þátt eða hafi bein tengsl við skipulögð brotasamtök eða að sérgreind hætta kunni að stafa af viðkomandi fyrir öryggi ríkisins eða almennings getur lögreglan fylgst með ferðum hans á almannafæri eða öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Lögreglustjóri þarf að gefa heimild fyrir þessu eftirliti. Lögreglan getur fylgst með ferðum einstaklings á almannafæri eða öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að ef viðkomandi er talinn tengjast skipulagðri brotastarfsemi eða hætta kann að stafa af honum fyrir öryggi ríkisins. Þar sem þetta eftirlit telst ekki vera þvingunaraðgerð er ekki mælt fyrir um úrskurð dómara. Það er í samræmi við sams konar aðgerðir lögreglu í sakamálalögum. Það væri óeðlilegt að viðhafa mismunandi vinnubrögð og krefjast mismunandi heimilda lögreglu í sams konar aðgerðum.
Frú forseti. Þær heimildir sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru í efnislegu samræmi við þær heimildir sem lögreglan annars staðar á Norðurlöndum hefur yfir að ráða. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga. Þess vegna finnst mér sérkennilegt með hvaða hætti sérstaklega þingmenn Pírata hafa gengið hér fram og fundið þessu frumvarpi allt til foráttu. Öflugar greiningardeildir eru einnig starfræktar hjá lögreglu og öryggisþjónustum þessara ríkja, sem gegna mikilvægu hlutverki í því að draga úr skipulagðri brotastarfsemi og koma í veg fyrir brot gegn öryggi ríkisins með víðtækri upplýsingaöflun og greiningu sem m.a. er notuð til kortlagningar á starfsemi brotasamtaka.
Hvernig verður svo þessu eftirliti með aðgerðum lögreglunnar háttað? Jú, annars vegar er mælt fyrir um að embætti ríkislögreglustjóra skuli starfrækja innra gæðaeftirlit með störfum lögreglu og að ráðherra skuli skipa gæðastjóra lögreglu til fimm ára í senn. Hins vegar er nefnd um eftirlit með lögreglu efld til muna með því að fjölga nefndarmönnum og kveða á um að formaður nefndarinnar skuli vera embættismaður í fullu starfi auk þess sem nefndinni er falið að hafa sérstakt eftirlit með aðgerðum lögreglu í þágu afbrotavarna. Þá er kveðið á um þinglegt eftirlit sem felur í sér árlega skýrslugjöf til Alþingis. Ég bara ítreka það, frú forseti, sem ég sagði hér áðan, að lögreglan er síður en svo á móti virku eftirliti hvað sín störf varðar.
Hér hefur verið rætt um hleranir en lögreglan hefur ekki heimild til að hlera fólk samkvæmt þessum lögum. Það er alveg skýrt. Til þess þarf fólk að vera grunað um glæp og það heyrir undir sakamálalögin. Lögreglan hefur enga heimild til að leita í híbýlum fólks samkvæmt þessum lögum, til þess þarf fólk að vera grunað um glæp og þá erum við aftur komin að sakamálalögum. Lögreglan fær heldur ekki heimild til að setja fólk í varðhald samkvæmt þessum lögum, það sama á við þar, það þarf að vera grunað um glæp og fellur þá undir sakamálalöggjöfina. Það er rétt að svara þessum spurningum sem hafa komið fram eins og t.d. þeirri hvort lögreglan geti njósnað um fólk. Þetta er bara eðlileg spurning. Hafi lögreglan áreiðanlegar upplýsingar um að tiltekinn einstaklingur taki virkan þátt eða hafi bein tengsl við skipulögð brotasamtök eða sérgreind hætta kann að stafa af viðkomandi fyrir öryggi ríkisins eða almennings getur lögreglan fylgst með ferðum hans á almannafæri eða öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að.
Ef við horfum á það sem lögreglan má ekki gera í almennum aðgerðum þá getur hún hvorki haft skipulagt eftirlit með einstaklingum né beitt þvingunarráðstöfunum. Þvingunarráðstafanir eru t.d. að haldleggja muni og leit og líkamsrannsókn o.s.frv. Lögreglan getur ekki beitt öðrum þvingunarráðstöfunum en handlagningu á munum eða afhendingu upplýsinga í vörslu þriðja aðila og þá á grundvelli dómsúrskurðar.
Ákvörðun um að hafa eftirlit með einstaklingi verður aðeins tekin af lögreglustjóra og skal bera hana undir stýrihóp um skipulagða brotastarfsemi til staðfestingar eigi síðar en þremur sólarhringum eftir að ákvörðunin er tekin þegar um er að ræða eftirlit á almannafæri vegna öryggis ríkisins. Ákvörðunin er tekin af ríkislögreglustjóra og er mikilvægt að hafa það í huga.
Frú forseti. Ég sé að tíminn er búinn en ég hef reynt að fara hér yfir nokkur álitaefni sem hafa komið hér fram. Ég legg áherslu á það að með þessu frumvarpi erum við að styrkja rannsóknir á skipulagðri glæpastarfsemi. Við erum bara að horfa á allt annað öryggismálaumhverfi heldur en var hér bara fyrir örfáum árum og þess vegna er fullkomlega eðlilegt að bregðast við með þessari löggjöf. (Forseti hringir.) Ég vona að frumvarpið fái að sjálfsögðu góða og efnislega umfjöllun í nefndinni og verði síðan að lögum.