154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, ég veit að hugmyndafræði Pírata er ekki sú sama og Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að mörgum málum og ég hef heyrt það bara á viðhorfi þingmanna í þessari umræðu að þeir hafa ansi sérstakar hugmyndir þegar kemur að þessum málum, verð ég að segja. Sérstaklega fannst mér þessar yfirlýsingar í upphafi umræðunnar um að hér væri hreinlega verið að svipta borgarana friðhelgi mjög djarfar að mínu mati. Hér var talað um gegndarlaust virðingarleysi í þessu frumvarpi og vanvirðingu. Ég bara skil það ekki. Það væri kannski ágætt að hv. þingmaður gæti skýrt það út fyrir mér. En varðandi forvirkar rannsóknarheimildir þá lúta þær fyrst og fremst að þvingunarráðstöfunum gagnvart einstaklingunum og þá erum við t.d. að tala um hleranir og haldlagningar þegar þær ráðstafanir byggjast ekki á sakamálalögum. Þannig að þetta frumvarp er ekki um forvirkar rannsóknarheimildir. Hv. þingmaður getur haft ákveðna skoðun á því. Ég er bara ekki sammála honum. Ég held að þetta sé mjög skýrt í frumvarpinu hvað þetta varðar þannig að ég vísa því á bug að svo sé.

Ég held að ég hafi þá farið yfir þetta, ég man ekki hvort það var eitthvað fleira sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega. En ég verð að segja að mér finnst hv. þingmenn Pírata ekki átta sig á því hvað það hefur orðið gríðarleg breyting í öryggisumhverfi okkar, bara í Evrópu, á örfáum árum og sérstaklega eftir innrás Rússa. Ég minni á það að nú var t.d. mjög áhugaverð öryggismálaráðstefna í München í Þýskalandi og þar kom fram (Forseti hringir.) að það eru sláandi breytingar á öryggismálaumhverfi í Evrópu. (Forseti hringir.) Finnar eru virkilega áhyggjufullir um að þeir verði fyrir árás frá Rússum og fleira mætti telja en tíminn er útrunninn.