154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Það er ýmsu að fagna í dag. Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin hafi komið sér saman um stefnu í þeim mjög svo víðtæka og margumdeilda málaflokki sem útlendingamálin eru. Það er nú stórfrétt dagsins, vikunnar, mánaðarins og ársins það sem af er. Ég trúi því að við séum að reyna að gera okkar besta þarna niðri í Egyptalandi, hvernig sem því mun reiða af og vinda fram, en það eru alla vega þrír öflugir menn þar suður frá. Ég er búinn að vera í sambandi við þá og veit að þeir bíða nú svara frá Ísraelum um hvað má og hvað má ekki.

Ég vil líka fagna því að í dag var fyrsta æfing alþingiskórsins nýstofnaða. Ég vil líka fagna því að framtíðarnefndin okkar hér í þinginu hefur að undanförnu verið að halda mjög merkilega fundi með mætum gestum og þá upp á síðkastið sérstaklega verið að beina sjónum að gervigreindinni, ógnunum og tækifærum henni tengd. Mig langar, með leyfi forseta, að víkja að gestum framtíðarnefndarinnar sem eru hér á pöllunum með okkur í dag:

„Welcome, our Finnish friends from the future committee. Thank you very much for receiving us so gracefully, from the Icelandic future committee. Thank you.“

Svo langar mig að segja að það sem hefur kannski verið ábótavant hjá okkur á landamærunum, þessari stærstu gátt Íslands þar sem milljónir farþega koma á hverju ári, var í betra lagi á Íslandi um og upp úr aldamótum en í nokkru öðru Evrópulandi. Kannski einungis Bandaríkjamenn stóðust samanburð við þann hátæknilega búnað sem var búið að koma þar fyrir og reka með bakvinnslu og öllu slíku, en var síðan blásinn af af einum ráðherra og framlögin, hausagjaldið á hvern túrista sem notað var til að byggja þetta upp, (Forseti hringir.) runnu síðan til Isavia með fyrirheit um að þeir myndu sjá um þetta, sem þeir gerðu síðan aldrei. Nú fagna ég því að menn séu með fyrirheit um að bæta úr þessu. Búnaðurinn og forritið er til, við klúðruðum bara boltanum þarna um árið.