154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:28]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar þetta frumvarp var lagt fram þá tók ég þátt í þeirri umræðu. Ég studdi markmiðin en hafði áhyggjur af útfærslunni. Þingflokkur Viðreisnar lagði fram breytingartillögur sem voru felldar af meiri hlutanum um þetta mál og mér finnst það skipta máli í þessu samhengi. Auðvitað eru pólitískar áherslur flokkanna ólíkar hér um en ég myndi halda að ráðherra háskólamála ætti að taka því mjög alvarlega hver staðan er varðandi greiðslukjörin, að þau séu svo slæm að það hafi áhrif á vilja fólks til að sækja í lánin. Það er þá ekki að spegla raunverulega viljaafstöðu að við séum með stóran hóp námsmanna sem ekki tekur lán bara vegna þess að eitthvað annað hentar þeim betur. Þvert á móti segir það okkur þá sögu að fólk getur ekki tekið lánin.

Síðan er hitt sem mig langaði til að ræða við ráðherra, sú mynd sem er að teiknast upp hér á landi um ávinning af háskólamenntun, tölur sem við höfum frá BHM, tölur sem við höfum frá Hagfræðistofnun um að laun háskólamenntaðra á Íslandi (Forseti hringir.) hafi að meginstefnu staðið í stað frá aldamótum. Hvaða framtíðarmúsík erum við að teikna upp fyrir Ísland í því samhengi?