154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:41]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Forseti. Ég brosi bara út í annað þegar ég heyri af stuðningi hv. þingmanns við það að við séum of skattlögð þjóð í heildina og fæ að nýta mér það við seinna tækifæri. Hér ræðir hún þó um frítekjumarkið og auðvitað er í því kostnaðar þegar við reiknum út útgjöld ríkissjóðs þegar við þurfum að veita hærri lán til nemenda sem þó eru í mikilli vinnu sem hafa hingað til verið skert. Það eru útgjöld þó að þau komi kannski inn með því að nemendur ákveði síðan að vinna meira með námi og greiða skatta af því. Ég hef sagt hér í dag að ég er ekki mótfallin þeirri áherslu. Ég sé að það er fjöldi nemenda sem velur það og vill það, en það hafa ekki verið þær áherslur stúdentahreyfinganna sem hafa komið á borð til ráðherra í því samráði sem verið hefur til nemendanna. Það er mjög misjafnt hvar áherslan liggur og hvort forgangsröðunin eigi að vera í hærri grunnframfærslu eða lækkun á frítekjumarkinu. Við þurfum líka að horfa til Norðurlandanna til að vera samkeppnishæf um þennan stuðning.