154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[15:45]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég tók þátt í umræðu um það frumvarp sem var undanfari þeirrar lagabreytingar sem við erum að fjalla um í dag og ég held að það megi kannski fara nokkur skref til baka og skoða stóru myndina í samhengi við þær niðurstöður sem nú liggja fyrir, niðurstöður um það að öllum markmiðum þessara laga hefur ekki verið náð fram. Eins og ég nefndi í andsvörum við hæstv. ráðherra finnst mér líka skipta máli að við ræðum þessar niðurstöður í samhengi við áherslu stjórnvalda á menntun yfir höfuð og yfirleitt, áherslu stjórnvalda á grunnskólamenntun, leikskólamenntun, framhaldsskólana og loks háskólana og ég hef áður nefnt það hér í þessum þingsal að mér finnst óþægilega lítið rætt um menntamál hér inni. Mér fannst óþægilega lítil viðbrögð ríkisstjórnarinnar og ráðherra hennar við niðurstöðum síðustu PISA-rannsóknar. Mér hefur fundist atvinnustefna ríkisstjórnarinnar vera mjög á þann veg að það sé verið að leggja áherslu á láglaunagreinar og við sjáum merki þess núna að háskólamenntun borgi sig ekki endilega til launa. Þegar við ræðum um hagvöxt á Íslandi og vísbendingar um að framleiðni fari minnkandi þá finnst mér gjarnan vanta að setja það í samhengi við áherslur stjórnvalda í atvinnumálum og fremur litla áherslu á háskólamenntun.

Þegar þetta mál var til umræðu hér á sínum tíma vorum við stödd í miðjum heimsfaraldri og þar var verið að ræða viðbrögð stjórnvalda við því erfiða ástandi sem þá var uppi og þar kom fram í umræðu um þetta mál að íslenskir námsmenn hafa almennt meiri fjárhagslegar áhyggjur en aðrir evrópskir námsmenn. Þetta sést einfaldlega í könnunum þar um. Við höfum séð að íslenskir háskólanemar eru eldri en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndum, að námsmenn á Íslandi eru lengi í námi og lengur í námi en annars staðar og ég held að það sé fremur augljóst að setja það í samhengi við þann veruleika íslenskra námsmanna, eða námsmanna á Íslandi, að þeir vinna mikið með námi, sem hefur áhrif á námshraða og framgang.

Reynsla okkar af kjörum námslána er þessi og hún hefur áhrif, ekki bara á námsmanninn sjálfan heldur á háskólaumhverfið allt. Það að vera lengi í námi og að vinna mikið með námi eykur líkur á því að nemendur hverfi frá námi án þess að ljúka háskólagráðunni. Þess vegna fannst mér og finnst enn að það hefði átt að vera skýrara þegar við afgreiddum þetta mál að grunnframfærslan myndi duga námsmönnum til framfærslu. Ég gagnrýndi þá að það skorti fyrirsjáanleika í þeim efnum og þetta finnst mér vera ákveðin kjarnaatriði í þessari stúdentapólitík, hver kjörin eru meðan á námi stendur, því reynslan okkar þar talar sínu máli. Reynslan er sú, og er áfram sú eftir samþykkt þessa frumvarps, að framfærslan hefur ekki dugað til. Hún hefur ekki búið stúdentum til þær efnahagslegu aðstæður að stúdentar lifi á námslánum. Í umsögnum um frumvarpið var bent á þetta, að grunnframfærslan hefði verið of lág. Þar var líka nefnt þetta sem ég er að draga fram hér, að þegar stúdentar þurfa að vinna samhliða námi, og þurfa að vinna mikið samhliða námi, er það til þess fallið að draga úr ekki bara námsárangri heldur námshraða og auka líkurnar á því að nemendur ljúki ekki námi. Það er kostnaður sem fellur ekki bara á þann og þann stúdentinn heldur okkur sem samfélag. Það er okkur öllum í hag að það sé skýrt markmið, sem komi skýrlega fram í lögunum, að framfærslan eigi að duga námsmönnum þannig að þeir geti stundað námið sitt sem fulla vinnu.

Það voru ýmsar góðar breytingar í þessu frumvarpi. Við í Viðreisn lögðum fram tvær tilteknar breytingar í meðförum málsins sem báðar voru því miður felldar. Fyrra atriðið lýtur að þessu, að tryggja að grunnframfærslan myndi duga stúdentum til framfærslu og að við myndum miða við það í lögunum sjálfum að það væri horft til neysluviðmiðs félagsmálaráðuneytisins. Síðari breytingartillagan var sú að nemendur gætu sótt um námsstyrk að norrænni fyrirmynd, fjárhæð styrks sem væri tilgreind í lögum og tæki breytingum í upphafi hvers skólaárs, í réttu hlutfalli við þessa vísitölu sem ég hef verið að nefna.

Mér finnst þessi skýrsla sem liggur núna fyrir draga fram að sumt af því sem varað var við á sínum tíma, ekki síst af hálfu stúdentahreyfingarinnar, hefur raungerst og að það eigi að bregðast við þessari gagnrýni núna með tilteknum aðgerðum, að það þurfi að rýna regluverkið og að það gerist eitthvað meira en að við stöndum hér í þessum sal í dag og ræðum skýrslu, að þessu fylgi ákveðin og markviss skref til að gera betur. Það þarf að horfa til framtíðar í þessum málaflokki. Það þarf að ganga lengra. Það þarf að stíga fastari skref. Það þarf að vera skýrt hver stefnan er hvað varðar háskólamenntunina, hvað varðar rannsóknir og hvað varðar nýsköpun. Það er til lítils að ræða nýsköpun þegar við fjárfestum ekki í rannsóknum og háskólamenntun. Þetta eru þrjár systur og nýsköpunarpólitík sem vanrækir háskólamenntun og rannsóknir stendur eftir tóm.

Ég held, þegar við skoðum þessa skýrslu í heild sinni og stóru myndina sem þar teiknast upp, að þá blasi við að það þarf að gera betur varðandi háskólanema, þeirra kjör meðan á námi stendur. Varðandi þessa þungu gagnrýni sem birtist í því að greiðslukjör námslána á Íslandi eru með þeim hætti að þau draga úr vilja námsmanna til að taka námslán yfirleitt — eru námsmenn að sleppa því að taka námslán vegna þess að staðan sé gegnumgangandi sú að námsmenn þurfi ekki á lánum að halda? Auðvitað þekkjast þess alveg dæmi. Námsmenn sem búa t.d. enn þá í foreldrahúsum og eiga gott og traust bakland þurfa ekki að taka þessi lán. Þetta er bara því miður ekki skýringin í öllum tilvikum. Þau eru mörg sem „velja sér“ að vinna frekar með námi vegna þess hvernig kjörin eru. Þarna dreg ég aftur fram upphafspunktinn um meiri fjárhagsáhyggjur íslenskra stúdenta eða stúdenta á Íslandi heldur en í öðrum Evrópulöndum.

Svo ég ljúki máli mínu á því sem ég byrjaði á þá finnst mér stóri punkturinn enn vera grunnframfærslan og greiðslukjörin, og svo hitt, að það mætti horfa til raunverulegs styrkjakerfis sem er þá ekki bara styrkjakerfi í formi endurgreiðslu heldur styrkur meðan á námi stendur. Ég held að það sé ástæða til að skoða þetta núna alvarlega þegar við erum með mjög skýr gögn um það, t.d. frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, að laun háskólamenntaðra hafa staðið í stað frá aldamótum. Þetta er áhyggjuefni. Þetta er vísbending um að við séum að veðja mjög markvisst á aðrar greinar en þær sem krefjast háskólamenntunar. Þetta er áhyggjuefni í samhengi við hagvöxt, í samhengi við framleiðni, og við þurfum að horfa dálítið á það. Þegar við tölum um og stærum okkur af því að jöfnuður tekna á Íslandi sé mikill þá viljum við, held ég, öll búa í samfélagi þar sem jöfnuður er mikill og tækifæri fólks eru jöfn. En þegar við blasir að það er stöðnun á lífskjörum, t.d. hjá háskólamenntuðum, þá þarf að staldra við því þetta er einfaldlega vond framtíðarmúsík og vond framtíðarmynd fyrir þjóðina alla.