154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:53]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir sína fínu ræðu sem hann hóf nú á því að tala um að mín ræða hefði verið hræðsluáróður. En til samanburðar, ef við ætlum að dansa pínulítið í takt, þá var hv. þingmaður mjög mikið staddur einhvers staðar 1944 þegar við urðum lýðveldi og það eru rétt um 80 ár síðan. Ég er hins vegar að reyna að lifa í núinu og færa mig til dagsins í dag og fylgja þeirri samfélagsþróun sem er að verða í fallega landinu okkar. Að ætla ítrekað að ræða t.d. um brjálæðinginn Viktor Orbán í því samhengi og Ungverjaland þá held ég að það sé dálítið langt frá því að við séum að stefna þangað. Það er náttúrlega engu líku saman að jafna. En ég ætla að þakka hv. þingmanni. Við höfum oft átt mjög góðar og ánægjulegar stundir saman hér í þinginu og unnið oft mjög vel saman þó að við séum náttúrlega að glíma hér eins og gengur í sambandi við þetta nýja frumvarp sem hér liggur fyrir þinginu. En við í Flokki fólksins höfum reyndar ekki áhyggjur af því og ég spyr bara hv. þingmann: Heldur hann í rauninni að þetta sé eitthvert alvörumál gagnvart íslenskum almenningi eða gæti frumvarpið hugsanlega stutt við starf lögreglu og einfaldað starf lögreglu sem í rauninni byggir á því að vernda okkur borgarana sem best hún getur? Og líka þetta: Er lögreglan yfir höfuð nógu vel mönnuð og nógu sterk til að geta tekist á við allar þær áskoranir sem þetta breytta samfélag er að færa henni í fang?