154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:31]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Frú forseti. Mig langar í ekkert svo löngu máli að fara aðeins yfir mína sýn á þetta ágæta frumvarp sem hér er komið fram og er breyting á lögreglulögum, afbrotavarnir, vopnaburður og eftirlit með lögreglu. Ég tel að hér sé afar brýnt og mikilvægt frumvarp komið fram sem lögreglan hefur kallað eftir árum og jafnvel áratugum saman. Það er ekki að ástæðulausu að lögreglan hefur gert það. Ástæðurnar eru einfaldlega þær að með breyttri heimsmynd og með breyttum tíma þá er staðan því miður orðin þannig að þetta frumvarp og þær heimildir sem lögreglunni eru veittar í þessu frumvarpi, eða þær eru skýrðar réttara sagt, eru nauðsynlegar þannig að lögreglan geti sinnt því hlutverki sem ætlast er til af henni.

Umræðan um þetta hefur verið alls konar og ég hef svo sem alveg skilning á mismunandi sýn og mismunandi sjónarmiðum fólks hvað þetta varðar. Það er verið að stíga ákveðið skref og veita lögreglu auknar heimildir til eftirlits. Allar slíkar heimildir þarf að sjálfsögðu að ræða og vanda vel til verka, síðast en ekki síst þarf náttúrlega að hugsa vel um og huga vel að eftirlitsþættinum, þ.e. að fylgst sé með því með þessum auknu heimildum að þær séu ekki misnotaðar eða að menn séu að ganga lengra en efni og aðstæður eru til. Eftir lestur þessa frumvarps verð ég að segja að fyrir mína parta líður mér nokkuð vel í eigin skinni með það sem þarna kemur fram varðandi þetta eftirlit, þetta gæðaeftirlit sem þarna er lagt til. Almennt séð í mínum samtölum sem ég hef átt við lögreglumenn um þetta mál held ég að þeir séu alls ekki á þeim buxunum að vera eitthvað á móti eftirliti eða auknu eftirliti með sínum störfum. Þvert á móti held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir lögregluna að vera með öflugt eftirlit, hvort sem það er í þessum málaflokki eða öðrum. Lögreglan á að vera hafin yfir gagnrýni og ef það er eitthvað í fari eða verkferlum lögreglunnar sem er þannig að betur megi fara eða að menn séu komnir eitthvað út fyrir sitt valdsvið þá á að sjálfsögðu að bregðast við. Það er ekkert öðruvísi í þessu frumvarpi en almennt með störf lögreglunnar.

En aðeins að efninu og út á hvað þetta gengur og hvernig þetta blasir við mér, sem hef starfað í þessum geira ansi lengi og m.a. verið starfsmaður þessarar ágætu greiningardeildar sem hér er talað um. Greiningardeild ríkislögreglustjóra var sett á laggirnar, ef ég man rétt, árið 2006 eða 2007. Starfsmenn ríkislögreglustjóra, starfsmenn greiningardeildarinnar, fóru m.a. strax í heimsóknir til Norðurlandanna og það er einmitt kafli um samanburð á milli Norðurlandanna í þessu frumvarpi. Við fórum í heimsóknir og töluðum við kollega okkar og þær stofnanir sem voru kannski hvað keimlíkastar okkar ágætu greiningardeild á öllum Norðurlöndum og heimsóttum allar stofnanir. Niðurstaðan úr þeirri heimsókn þá, árið 2007, var að þessa heimild skorti til að lögreglan gæti einfaldlega sinnt því eftirlitshlutverki sem henni ber lögum samkvæmt. Nú er árið 2024 og við erum að ræða þetta hér. Eðli málsins samkvæmt fagna ég því vel að þetta sé loksins komið og hefði í raun og veru löngu átt að vera komið í gegnum okkar háa Alþingi þannig að lögreglunni væri gert einfalt að sinna þessu hlutverki sem henni er ætlað.

Það er einfaldlega þannig að eins og staðan er í dag þarf að vera rökstuddur grunur um brot til þess að lögreglan geti aðhafst. Ef ég kem með tilbúið dæmi: Við erum með þrjá einstaklinga sem eru búsettir í Svíþjóð, Noregi og Danmörku og eru allir undir eftirliti, hvort sem það er PST, PET eða SÄPO eða þessara stofnana á Norðurlöndunum, og eru búnir að vera það kannski í einhvern tíma vegna gruns um tengsl við hryðjuverkastarfsemi. Þessir aðilar, þrír eða fjórir, fljúga allir til Íslands. Þá hafa íslensk stjórnvöld engin tækifæri og engin tól til að fylgjast með þessum aðilum hér á Íslandi, hverja þeir eru að hitta, hvort þeir hittast og yfir höfuð hvað þeir eru að sýsla. Staðan er bara þannig með þessa löggjöf sem við erum að tala um hér að allar löggæslustofnanir í Evrópu eru með þessar heimildir. Ísland er eina undantekningin eftir því sem ég veit sem gerir Ísland að ákveðnu fríríki í Evrópu hjá þeim löndum sem við viljum bera okkur saman, sem er alls ekki boðlegt núna árið 2024. Á þessu verður að taka og á þessu er tekið hér því að skipulögð glæpastarfsemi, hvort sem það er mansal, peningaþvætti, fíkniefnaviðskipti eða hryðjuverkatengd starfsemi, virðir engin landamæri. Íslendingar og okkar löggæslustofnanir verða að hafa burði og styrk til þess að geta tekið þátt í því alþjóðasamstarfi og þeirri alþjóðasamvinnu sem ríkir hér allt í kringum okkur og þurfa að hafa heimildir til þess að geta verið jafnokar eða a.m.k. ekki eftirbátar þessara ríkja og stofnana sem hér eru allt í kringum okkur. Ég tel því að við séum komin á ágætisstað með því að fá þetta frumvarp. Það er löngu tímabært og eins og ég segi er lögreglan búin að kalla eftir þessu árum og jafnvel áratugum saman.

Auðvitað væri best ef við værum í þannig veröld að við þyrftum ekki að vera að velta þessu fyrir okkur en því miður er staðan önnur og eins og margoft hefur verið bent á í ársskýrslum og greiningarskýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra er þörfin á þessu mikil. Svo ég segi það bara hreint út þá er það mikill ábyrgðarhluti af Alþingi Íslendinga ef við ætlum ekki að hleypa þessu frumvarpi í gegn. Ég held að það verði erfitt fyrir þá sem standa fyrir slíku að réttlæta þá gjörð ef eitthvað gerist sem mögulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir með þessum afbrotavörnum og þessu eftirliti. Því miður þá er það bara þannig, þótt okkur hér á Íslandi finnist þetta kannski fjarlægt og einhvers konar veruleiki sem á ekki við hér á Íslandi, að staðan á Norðurlöndunum og alls staðar í kringum okkur hefur þróast með þeim hætti að við getum ekki lengur horft undan og verið það barnaleg að telja okkur trú um að hér muni aldrei neitt gerast og hingað muni aldrei neinir einstaklingar koma sem hafa eitthvað annað en gott í hyggju. Við verðum að búa okkar löggæslustofnanir undir það að geta tekið við og brugðist við slíku ástandi ef það kemur upp.

Ég held að þetta snúist að mörgu leyti um traust. Lögreglan er sú stofnun sem hefur mælst með eitt mesta traust meðal opinberra stofnana mjög lengi, t.d. miklu meira en þessi stofnun sem við stöndum í hér. Ég held að okkur sé óhætt að treysta lögreglunni fyrir þessum heimildum og alveg klárlega að mínu viti. Umræðan hefur sömuleiðis verið þannig að lögreglan sé að óska eftir heimildum, búnaði, tækjum og tólum, sem er að vissu leyti alveg rétt. En það má ekki gleyma því og ég er alveg sannfærður um það eftir mörg samtöl sem ég hef átt í gegnum tíðina við hina ýmsu einstaklinga úti um allt land að almenningur í þessu landi gerir líka kröfu á lögregluna. Almenningur í þessu landi gerir kröfu á lögregluna að hún geti og eigi að geta haft burði til þess að bregðast við þeim aðstæðum sem upp koma hverju sinni. Það er krafa almennings í þessu landi og við getum ekki brugðist almenningi í því verkefni. Og þegar lögreglan kallar eftir þessu, að nú komist hún í raun og veru ekki áfram mikið lengur öðruvísi en að vera með þessar heimildir sem eru veittar hér eða skýrðar betur þá held ég að okkar verkefni sé að tryggja að íslenska lögreglan standi jafnfætis nágrönnum sínum hér á Norðurlöndunum og í Evrópu allri og geti sinnt þessu eftirliti eins og öllu öðru eftirliti og öllum öðrum verkefnum sem lögreglan sinnir dag frá degi.

Ég vil að endingu óska nefndinni sem mun fá þetta mál til sín velfarnaðar í sínum störfum. Eflaust eru einhverjir punktar í þessu frumvarpi sem hægt er að skerpa á eða laga sem mun örugglega koma betur í ljós í vinnu nefndarinnar. Að því sögðu vil ég óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með að vera kominn með þetta frumvarp hér inn og lögreglunni allri, því að við erum að tala hér um áralanga baráttu lögreglunnar, áralangt ákall lögreglunnar fyrir þessum breytingum sem ég vona svo sannarlega og innilega að muni nú loks ná fram að ganga, lögreglunni og íslenskri þjóð til heilla.