154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum hér fyrir mjög góðar umræður um þetta mikilvæga frumvarp í gær og í dag. Ég hef ekki talið klukkustundirnar en ég geri ráð fyrir að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hafi talið það rétt og þær séu að verða sex, sem er allsérstakt fyrir þetta frumvarp, sér í lagi af því að ég sem ráðherra sem leggur þetta fram tel ekki að þetta frumvarp sé svo mikið að umfangi.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögreglulögum er varða aðgerðir lögreglu í þágu afbrotavarna, innra gæðaeftirlit með störfum lögreglu, breytingar á skipan nefndar um eftirlit með lögreglu og reglur um meðferð og notkun vopna hjá lögreglunni. Frumvarpið er liður í því að veita lögreglu lagaheimildir til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum í því skyni að stemma stigu við skipulagðri brotastarfsemi og brotum sem geta raskað öryggi borgaranna og ríkisins.

Að gefnu tilefni tel ég mikilvægt að það komi fram að hér er ekki um svokallaðar forvirkar rannsóknarheimildir að ræða auk þess sem lögreglan fær ekki heimild til þvingunarráðstafana, svo sem húsleitar, líkamsleitar eða símahlustunar. Í frumvarpinu er sérstaklega fjallað um lagaheimildir lögreglu hér á landi og þær bornar saman við heimildir lögreglu á hinum Norðurlöndunum og þetta tel ég mjög mikilvægt. Af þeim samanburði er ljóst að starfsumhverfi, stofnanauppbygging og lagaheimildir lögreglu á sviði afbrotavarna eru mun takmarkaðri en hér á landi samanborið við nágrannaríki, einkum að því er varðar öryggi ríkisins.

Segja má að með samþykkt frumvarpsins verði í raun engin breyting þar á en stigið verður hins vegar skref í þá átt að lögregla geti unnið með markvissari hætti í þágu almennra afbrotavarna sem og til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi og tryggja öryggi almennings og ríkisins.

Við erum með þessu frumvarpi, virðulegi forseti, að stíga varfærin skref. Skilyrðin sem hér eru sett við þessum auknu heimildum lögreglu eru mjög ströng þegar kemur að skipulagðri brotastarfsemi og öll skilyrðin sem þarna eru uppfylla ákvæði mannréttindasáttmálans enda hafa öll Norðurlöndin sambærilegar heimildir sem standast alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar. Hér er ráðherra ekki að leggja fram neitt annað en sambærilegar heimildir á við Norðurlöndin.

Á okkur hvílir sú skylda, við skulum alltaf hafa það í huga, að vernda borgarana, hvort sem er gagnvart skipulagðri brotastarfsemi eða hryðjuverkaógn og við skulum hafa það í huga að skipulögð brotastarfsemi er ógn við lýðræði og mannréttindi.

Að því sögðu þá vil ég aftur ítreka þakkir mínar til þingsins fyrir mjög góðar umræður og ég býst við góðri samvinnu við hv. allsherjar- og menntamálanefnd.