154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

Störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í gær lagði hæstv. dómsmálaráðherra fram stórar og mikilvægar breytingar á útlendingalögum. Ríkisstjórnin kynnti samhliða því sterka sýn og heildarstefnu í útlendingamálum. Eftir þessu hefur verið kallað og afrakstur mikillar vinnu liggur nú fyrir. Ég fagna þeirri breytingu sem hefur orðið á pólitískri umræðu um verndarkerfið okkar undanfarna daga. Fleiri hafa stigið fram og lýst áhyggjum af þróun mála, gríðarlegri kostnaðaraukningu og þeirri staðreynd að íslenskar reglur eru ekki sambærilegar reglum nágrannaþjóða okkar, sem er auðvitað lykilatriði í jafn stóru alþjóðlegu verkefni og móttaka fólks á flótta er. Verndarkerfið er neyðarkerfi sem okkur ber að taka föstum tökum og setja skýrar reglur um og í senn mæta fólki af mannúð og skilningi á þeim aðstæðum sem einstaklingar eru í sem koma hingað til lands á flótta frá sínum heimahögum. Við hér á Alþingi setjum fordæmi fyrir samfélagslega umræðu um málefni einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd og til mikils er að vinna að við ýtum ekki undir skautun í umræðunni, að við getum talað út frá staðreyndum og haldið okkur frá gífuryrðum, upphrópunum og ómálefnalegum skoðanaskiptum. Afleiðingar þess að aðeins heyrist í þeim sem sitja yst á sitthvorum vængnum fela í sér vonda þróun í samfélaginu okkar þar sem til verður skipting meðal hópa eftir afstöðu til mikilvægra málefna. Meiri hluti venjulegs fólks hefur veigrað sér hingað til að mæta í umræðuna vegna þess að fólki eru gerðar upp annarlegar hvatir fyrir að vilja setja skýrar reglur, skýr mörk á því hversu mikið við getum tekið í okkar fang án þess að ganga of nærri samfélaginu og innviðum okkar, að vilja bæta skilvirkni í kerfinu og fjarlægjast ósanngjarnar tafir á málsmeðferð. Ég vona að betrumbót verði á umræðunni, og ég heyri það hér í dag að hún verður það væntanlega næstu misserin, og að við náum að klára þetta stóra mál til að taka sterkum höndum um þetta stóra mikilvæga verkefni okkar.