154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

Störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hver verður arfleifð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur? Ef við horfum aftur til ársins 2017 þegar hún tók við og komum aftur til ársins í ár þá má merkja eina umtalsverða og að mínu mati mjög neikvæða breytingu á samfélaginu okkar. Það hefur orðið alger umsnúningur á viðhorfi fólks til fólks á flótta. Þar tel ég að ábyrgð flokks sem hefur frið og réttlæti og virðingu fyrir fólki á flótta að meintum hornsteinum sínum sé mikil í þessum efnum. Ég held að ef fólk vill fólki á flótta vel og telur að það sé ekki óvinur okkar, sé ekki byrði á innviðunum okkar og telur að ef við leyfum því að vera þátttakendur í samfélaginu okkar í staðinn fyrir að halda því stöðugt fram að það sé byrði á því, þá muni aðlögun og inngilding ganga mjög vel. Í stað þess að segja þeim stöðugt að þau séu ekki hluti af samfélaginu okkar, að þau kosti önnur börn eitthvað, séu minna virði heldur en aðrir hér, því að þá upplifir fólk sig ekki sem hluta af þessu samfélagi.

Það er ábyrgðarhluti þeirra sem hér eru að hafa leitt þennan viðsnúning í viðhorfi fólks á Íslandi, frá því að vera að meiri hluta jákvætt gagnvart fólki á flótta yfir í það að vera að meiri hluta neikvætt gagnvart því. Þetta gerist með því að færa mörkin stöðugt til. Þetta sáum við fyrir ári síðan þegar þessi ríkisstjórn kom því í gegn að henda flóttafólki á götuna. Það sendir skilaboð. Við sjáum grátandi konur úti á götu, þolendur mansals úti á götu. Þetta vildi ríkisstjórnin. Þetta fékk ríkisstjórnin í gegn. Nú er það allt í einu bara orðinn eðlilegur hlutur að búa til móttökubúðir fyrir flóttafólk, móttökubúðir með fangavörðum, móttökubúðir með valdbeitingarheimildum til að geyma fólk á flótta. (Forseti hringir.) Nú er það orðin ágætislausn á því að hafa hent því á götuna fyrir ári síðan. Þetta verður hin sorglega arfleifð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.