154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

27. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta hv. velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga. Með þessu frumvarpi eru lagðar til löngu tímabærar breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga sem hafa það að markmiði að betrumbæta úrræði og gera málsmeðferð bæði skýrari og skilvirkari umsækjendum til hagsbóta. Meiri hlutinn telur frumvarpið fela í sér jákvæð skref í þá átt að mæta einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum þannig að hægt verði að greiða úr skuldavanda þeirra sem hvað verst eru stödd. Það úrræði sem er til staðar í gildandi lögum hefur sannað mikilvægi sitt en nauðsynlegt er að gera breytingar á lögunum, m.a. í ljósi þess að umhverfi og þarfir umsækjenda hafa breyst nokkuð frá því að lögin voru sett árið 2010.

Nefndin fjallaði að sjálfsögðu talsvert um málið og fékk gesti á sinn fund og umsagnir um málið og er greint frá því í nefndarálitinu sem liggur frammi.

Það eru örfá atriði sem ég, fyrir hönd meiri hlutans, vil árétta sérstaklega í kjölfar umræðu og umfjöllunar í nefndinni. Við fjölluðum í nefndinni sérstaklega um meðferð krafna vegna námslána. Í 3. gr. gildandi laga um greiðsluaðlögun er tilgreint til hvaða krafna greiðsluaðlögun tekur. Samkvæmt ákvæðinu tekur greiðsluaðlögun m.a. til krafna Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna námslána að öðru leyti en því að ákveða má við greiðsluaðlögun að afborganir af þeim og vextir falli niður á greiðsluaðlögunartímanum. Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um að þeim greiðslum sem falla niður á greiðsluaðlögunartíma, ásamt vanskilaþætti kröfunnar, skuli bætt við höfuðstól. Tilgangur þessara breytinga er að tryggja skýra meðferð krafna vegna námslána þegar skuldari fær samning um greiðsluaðlögun.

Í umsögn Menntasjóðs námsmanna var þessi breyting gagnrýnd. Bendir sjóðurinn á í sinni umsögn að í framkvæmd sé það þá þannig að ef námslán fara í alvarleg vanskil er undantekningarlaust farið með mál fyrir dómstóla og stefna árituð um aðfararhæfi. Með hliðsjón af því feli ákvæði frumvarpsins í sér að löggjafinn feli umboðsmanni skuldara, sem er ríkisstofnun sem tekur stjórnvaldsákvarðanir, vald til að breyta dómum dómstóla sem brjóti gegn 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrígreiningu ríkisvalds. Meiri hlutinn bendir á, líkt og fram kemur í minnisblaði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, að með breytingunni er verið að lögfesta framkvæmd sem hefur verið viðhöfð lengi. Meiri hlutinn áréttar að áfram er gert ráð fyrir að lögin taki til frjálsrar greiðsluaðlögunar, þ.e. samninga um greiðsluaðlögun, og áfram er útfærð tenging við réttarfarsleg úrræði til greiðsluaðlögunar. Þá er áfram gert ráð fyrir að kröfuhafa sé heimilt að lýsa kröfu í kjölfar innköllunar í Lögbirtingablaði og njóti þannig andmælaréttar gagnvart tillögum um meðferð krafna sjóðsins. Náist ekki samningur um greiðsluaðlögun við kröfuhafa getur skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði eða hvors tveggja í senn. Með hliðsjón af því telur meiri hlutinn að ekki gæti ósamræmis milli ákvæðisins og 2. gr. stjórnarskrárinnar.

Nefndin fjallaði einnig um meðferð persónuupplýsinga, af því að meðal þeirra breytinga sem eru lagðar til í frumvarpinu er að lögfesta heimildir embættis umboðsmanns skuldara til að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar um skuldara við tilteknar aðstæður. Í umsögn Persónuverndar var á það bent að það geti verið matskennt hvaða viðkvæmu persónuupplýsingar ábyrgðaraðili teldi nauðsynlegt að miðla til þriðja aðila hverju sinni og bent er á að slík matskennd lagaákvæði geti falið í sér ákveðna hættu. Því ætti að huga að því að setja fram skýrar viðmiðanir um túlkun þeirra og slíkt hafi einungis verið gert í athugasemd við ákvæði b-liðar 13. gr. frumvarpsins. Með hliðsjón af framansögðu vill meiri hlutinn árétta mikilvægi þess að gætt verði að sjónarmiðum um meðalhóf við fyrirhugaða vinnslu persónuupplýsinga. Þannig skuli í framkvæmd unnið eftir ströngum vinnureglum við meðferð og miðlun viðkvæmra upplýsinga um skuldara og það skuli gert með þeim hætti að meðalhóf sé ávallt tryggt. Ég veit til þess að Persónuvernd hefur einmitt fundað með umboðsmanni skuldara til að fara vel yfir hvernig hægt er að ná utan um þetta svo lög séu ávallt uppfyllt.

Meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 9. gr. Með því ákvæði frumvarpsins er lagt til að kröfuhafa verði gert skylt að endurgreiða greidda fjárhæð sem óheimilt er að taka við í greiðsluskjóli nema um fésekt sé að ræða. Hafi skuldari greitt fésekt meðan á frestun greiðslna varir ber innheimtuaðila þó ekki að endurgreiða greidda fjárhæð í ljósi þess að með greiðslu sektar hefur refsing komið til framkvæmdar. Í umsögn Skattsins var bent á að sú undantekning ætti ekki jafnframt við um vörsluskatta. Í minnisblaði frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu til nefndarinnar er fallist á þessa athugasemd Skattsins og lagt til að undantekningin nái jafnframt til skaðabótakrafna vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi, enda séu slíkar kröfur sérstaks eðlis líkt og þegar um er að ræða fésektir. Leggur meiri hlutinn því til breytingu þess efnis.

Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins. Í frumvarpinu er lagt til að lögin öðlist þegar gildi og eigi við um umsóknir sem eru til meðferðar hjá umboðsmanni við gildistöku laganna og hafa ekki verið samþykktar. Í minnisblaði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins til nefndarinnar er lagt til að gildistökunni verði frestað til 1. apríl 2024 með þeim rökum að gefa þurfi embætti umboðsmanns skuldara svigrúm til að bregðast í starfsemi sinni við þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Með vísan til þess leggur meiri hlutinn til að lögin taki gildi 1. apríl 2024.

Ég vísa að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar.

Ég sé að frá minni hlutanum er komið álit sem tekur á tveimur þáttum og verður áhugavert að heyra fulltrúa þess fara yfir það. Ég sé ekki alveg fyrir mér, sérstaklega með seinni tillöguna, hvernig hreinlega hægt er að uppfylla það ákvæði, þ.e. að forðast eins og frekast er kostur að knýja umsækjanda um greiðsluaðlögun til að selja húsið sitt nema ef hægt er að sýna fram á að hann geti keypt ódýrara en viðunandi húsnæði í staðinn og leyst þannig úr vandanum. Ég treysti því að hv. fulltrúar minnihlutaálitsins fari aðeins yfir það og skýri það út. Ég tel að við séum að ganga hér talsvert langt í þessu frumvarpi og löngu kominn tími á að þetta sé endurskoðað eins og kom fram við umfjöllun nefndarinnar, ekki síst í ljósi reynslunnar sem umboðsmaður skuldara bar á borð fyrir nefndina og fór afskaplega vel yfir að mínu mati.

Virðulegi forseti. Að framansögðu virtu leggur meiri hluti hv. velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir.

Undir álit nefndarinnar skrifa, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Friðrik Már Sigurðsson, Jóhann Páll Jóhannsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Óli Björn Kárason. Þá er Guðbrandur Einarsson, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, samþykkur áliti þessu.