154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

Gjaldtaka á friðlýstum svæðum.

[11:06]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa sérstöku umræðu um gjaldtöku á friðlýstum svæðum sem ég hlakka til að eiga hér, bæði við hann og aðra hv. þingmenn. Um 23% af landi á Íslandi eru friðlýst. Þetta eru 130 friðlýst svæði, þar af þrír þjóðgarðar. Við Íslendingar höfum undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um að ná þessu hlutfalli upp í 30% fyrir árið 2030, bæði á landi og hafi. Það má segja að það hafi gengið hraðar og vel á undanförnum árum að hækka þetta hlutfall með tilliti til lands en það vantar mikið upp á þegar kemur að hafinu. Þar er þó vinna hafin í því samhengi og góður gangur í henni, eins og ég hef skilið það. Flest þeirra sem sækja Ísland heim, einu sinni eða oftar, svara því til að þau hafi valið að koma hingað vegna íslenskrar náttúru, sérstöðu hennar, víðáttunnar, upplifunarinnar sem finnst hér og jafnvel hvergi annars staðar. Ég nota hvert einasta tækifæri þegar við ræðum þessi mál til þess að geta þess að ef við tökum Evrópu alla eru síðustu 43% af ósnortnum víðernum Evrópu að finna á Íslandi einu. Þetta eru verðmæti í sjálfu sér, virðulegi forseti. Þetta fólk er svo ekki bara að sækja ósnortna náttúru eða íslenska náttúru heldur líka þá upplifun sem náttúran veitir þeim og gefur og margir þessara gesta sem hingað sækja koma jú aftur og aftur eins og við þekkjum.

Þetta er mikill fjöldi fólks, virðulegi forseti, og hefur þeim fjölgað hratt á undanförnum árum, við þekkjum þá sögu ágætlega, sem eru að sækja í þessi verðmæti okkar. En þau skilja líka eftir sig verðmæti. Efnahagslegt virði friðlýstra svæða hefur verið kannað í einstaka rannsóknum en líka í rannsókn sem tók til að ég held 12 svæða, sem nær öll eru friðlýst eða mikilvægir áfangastaðir í íslenskri náttúru. Þetta var 2018 og þar var niðurstaðan sú að hver króna sem hið opinbera leggur í málaflokkinn skilar sér í formi 13 kr. að jafnaði til baka en allt að 23 kr. í einstaka tilfellum, svo sem eins og í Snæfellsjökulsþjóðgarði. Það er því ljóst að það er töluvert af fjármunum í umferð þarna.

Mig langar í þessu samhengi því að spyrja hæstv. ráðherra: Á hvaða friðlýstu svæðum er gjaldtaka fyrir veitta þjónustu í dag? Hvaða frekari áform hafa stofnanir sem hafa umsjón með friðlýstu svæðunum, og þær eru þrjár, um gjaldtöku á þeim? Hérna er ég að spyrja um innheimtu fyrir veitta þjónustu, þ.e. bílastæðagjöld, salernisgjöld og aðra þjónustu sem veitt er á friðlýstum svæðum, hún er margháttuð. Hvaða viðmið telur ráðherra við hæfi að ráði því hvort hefja skuli gjaldtöku á friðlýstu svæði eða einstaka stöðum þess? Hversu stórt hlutfall af fjárheimildum einstakra friðlýstra svæða er til komið vegna sértekna af innheimtu þjónustugjalda? Hvert telur ráðherra vera eðlilegt hlutfall sértekna til rekstrar friðlýstra svæða í samhengi framlaga af hálfu hins opinbera? Gildir eitt og sama viðmiðið fyrir öll friðlýst svæði á Íslandi? Ég sagði hér áður að við erum með þrjá þjóðgarða. Þeir eru misstórir og misvel sóttir hlutar þeirra innan hvers þjóðgarðs. Ég get tekið sem dæmi að Jökulsárlón og Skaftafell eru innan Vatnajökulsþjóðgarðsins og Lakagígar, en þar höfum við ekki endilega séð mikla aukningu gesta. Blessunarlega, segi ég, því að þetta er líklega eitt viðkvæmasta svæðið á landinu.

Að endingu langar mig að spyrja að því: Telur ráðherra komugjald, þar sem gestir greiða eitt fast gjald við komuna til landsins, vera fýsilegan kost til fjármögnunar rekstrar og viðhalds á friðlýstum svæðum? Ef svo er, hvert ætti fyrirkomulag slíks gjalds að vera?

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðherra fyrir að taka þessa umræðu hér. Hún klárast nú sjálfsagt ekki að fullu, við þekkjum það og höldum áfram að ræða þetta. Upp hafa komið ýmsar hugmyndir í gegnum tíðina um það hvernig við viljum standa að gjaldtöku á friðlýstum svæðum en ég treysti því að hv. þingmenn sem taka þátt í umræðunni séu sammála mér um það að það er mikilvægt að hún sé í ákveðnu formi og að við séum sammála um það að við getum innheimt gjöld á þessum svæðum en það þurfi að vera eftir einhverjum ákveðnum reglum og viðmiðunum.