154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

skýrsla hæstv. utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins.

[11:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson talaði um skilvirkni í störfum þingsins. Það hefur vissulega hefur skort mikið á hana oft á tíðum hér í þinginu og er alls ekki til fyrirmyndar. Ef við berum okkur saman við skilvirkni hjá þingunum í nágrannalöndum okkar í Evrópu þá erum við auðvitað miklir eftirbátar í allri málsmeðferð miðað við þessa kollega okkar í nágrannalöndunum.

En hér er einmitt að hefjast hið hefðbundna, virðulegur forseti, sem dregur kannski mest úr skilvirkni þessa þings; það er dæmigert málþóf sem hv. þingmenn Pírata og einhverjir þingmenn Samfylkingarinnar líka grípa til, bara með það eitt að markmiði að koma í veg fyrir að við getum látið mæla fyrir frumvarpi um ný útlendingalög, sem er gríðarlega mikilvægt að verði tekið til hér umræðu í þinginu. Það verður mjög áhugavert að sjá (Forseti hringir.) í ljósi nýrra yfirlýsinga hvernig ákveðnir flokkar munu tala hér, hvort það verður áfram talað um ógeðsfrumvarpið, eins og var fyrir 11 mánuðum, eða hvort menn eru orðnir eitthvað málefnalegri í afstöðu sinni.