154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

skýrsla hæstv. utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins.

[11:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég held að hér hafi átt sér stað ákveðið met í því hversu fljótt stjórnarliðar gátu farið að orga málþóf þegar stjórnarandstaðan hefur upp raust sína varðandi fundarstjórn forseta, ekki einu sinni meira en það. Við vorum bara að gagnrýna að til stóð að ræða skýrslu um framkvæmd EES-samningsins og hætt var við það í gærkvöldi, bara upp úr kvöldmatarleytinu. Við vorum að gagnrýna það hversu ófyrirsjáanlegt þetta fyrirkomulag er hérna í þinginu og hvað er mikil hentistefna rekin varðandi dagskrána, að það sé aldrei hægt að stóla á nokkurn skapaðan hlut. Hér var varaþingmaður búinn að eyða töluverðum tíma í að undirbúa sig fyrir þessa umræðu og sá undirbúningur er til einskis. Það kannski skiptir forseta ekki miklu máli og það er kannski tilefni fyrir hv. þm. Jón Gunnarsson að fara upp í fýlu um málþóf en það breytir því ekki að þetta er mjög pirrandi, virðulegi forseti, og það er óþarfi að gera þetta. Fyrir utan það, og nú vísa ég til hv. þm. Ingibjargar Isaksen, að það var forseti sem ákvað að taka EES-skýrsluna af dagskrá. (Forseti hringir.) Hann hefði líka alveg getað sett hana fyrir aftan útlendingaumræðuna. Þannig að ég óska eftir að því sé beint til forseta frekar en okkar sem hér stöndum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)