154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna og gott samstarf í nefndinni við undirbúning og vinnslu þessa máls. Ég kem hér upp með tvær spurningar. Í fyrsta lagi kannski bara almennt varðandi stuðning við atvinnulífið í Grindavík. Mér fannst koma svolítið skýrt fram í meðferð málsins fyrir nefndinni að þetta úrræði væri kannski einna helst ætlað litlum og meðalstórum fyrirtækjum og nýttist þeim best í ljósi þeirra hámarka sem eru þarna og annað slíkt. Þar af leiðandi finnst mér vert að taka upp hvort hv. þingmanni finnist að nefndin þurfi að taka til skoðunar hvað er hægt að gera til að styðja við stærri fyrirtæki sem hafa orðið fyrir skaða, sér í lagi kannski með hliðsjón af því að viðhalda starfsemi sem hefur kannski tengsl við Grindavík að því marki sem hægt er. Mér finnst svolítið mikilvægt að velta þessu upp vegna þess að þó að stærri fyrirtæki hafi meiri burði til að takast á við áföll sem þessi þá er það oft þannig að það lendir kannski á þeim sem síst skyldi, þ.e. starfsmönnunum, hvernig svona mál eru afgreidd innan húss, innan þessara fyrirtækja. Ég velti því upp hvort nefndin þurfi ekki að taka þetta til einhverrar meiri efnislegrar skoðunar.

Síðan vil ég fagna því að nefndin, og ég þar með talin, að við höfum ákveðið að framlengja tímafrestinn í þessu og ég vildi eiginlega bara árétta mikilvægi þess og fá hv. þingmann til að taka undir með mér að við munum þegar fram líða stundir gera það að eigin frumkvæði að meta hvort þörf sé á að framlengja þetta úrræði og bara að við segjum það skýrt hér í þessum ræðustól að nefndin verður vakandi fyrir því og mun gera það áður en þessu þingi lýkur í sumar.