154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:42]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir sína ræðu og eins samstarf í hv. efnahags- og viðskiptanefnd í þessu máli. Hv. þingmaður vekur hér athygli á ákvæði í 9. gr. frumvarpsins, 2. mgr. um tímafresti arðgreiðslna, þar sem miðað er við tímamark 7. febrúar 2024, fyrir 1. maí 2025. Ég held að hv. þingmaður hafi nokkuð til síns máls og efnahags- og viðskiptanefnd breytir öðrum tímamörkum um gildistíma frá apríl inn í júní og svo umsókn sem því nemur og tel að þá verði þessar dagsetningar færðar til samræmis. Hvort slíkar breytingar yrðu gerðar með breytingartillögu í þessari umræðu eða nefndin taki málið milli 2. og 3. umræðu til framhaldsnefndarálits og breytingartillögu munum við bara láta ráðast en ég vildi koma hér upp og koma þessu á framfæri, frú forseti.