154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:01]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mig langar í tilefni af ræðu hv. þm. Jóhanns Friðriks Friðrikssonar aðeins að glugga í umsögn atvinnuteymis Grindavíkurbæjar um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Það eru margar mjög góðar ábendingar og skilji ég málið rétt, nú sit ég ekki í þeirri hv. þingnefnd sem hefur málið til umfjöllunar, þá hefur verið tekið tillit til margra þeirra ábendinga hér við meðferð málsins og það er af hinu góða að sjálfsögðu. En tónninn í þessari umsögn, bara svo það sé sagt, er auðvitað mjög skýr um það að hér sé um mjög tímabundnar aðgerðir að ræða. Það er ákveðið ákall eftir annars konar aðgerðum líka, sem er hægt að lesa um hér næstum á hverri síðu, og að það sé þörf á fleiri úrræðum til að styðja fyrirtækin í Grindavík. Sagt er berum orðum að það sé auðvitað ljóst að ákveðin þjónusta sé þess eðlis að hún muni ekki snúa til baka nema fólk snúi til baka og búi aftur í bænum og við vitum ekki á þessari stundu hvenær það getur gerst ef það þá gerist. Hér er nefnt, með leyfi forseta, uppkaup, flutningsstyrkir eða bætur til fyrirtækja sem þannig er ástatt um. Það hlýtur einhvern tíma að koma til álita í umfjöllun okkar og aðgerðum vegna ástandsins í Grindavík. En mig langar að spyrja þingmanninn af þessu tilefni hvaða aðrar aðgerðir vegna fyrirtækja hafi helst komið til álita í nefndinni og í umræðunni um þessi mál.