154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Ég er ekki sammála því að það hafi liðið eitthvað sérstaklega langur tími, svona miðað við allt og allt sem þarf að huga að þegar kemur að aðgerðum. Hins vegar skil ég mætavel að íbúum í Grindavík finnist tíminn allt of langur, annað væri held ég bara að ætlast til einhvers ómannlegs af fólki, að vilja ekki sjá hlutina gerast hraðar. En mér finnst líka mikilvægt að það sé vandað til verka, bæði þegar frumvörp koma fram og eru samin en svo líka hér í meðförum þingsins þar sem við höfum sniðið af agnúa eða breytt hlutum. Auðvitað væri það í einhvers konar fullkomnum heimi þægilegast ef hægt væri að setja fram eitt frumvarp sem tæki bara á öllum málum. En það er ekki raunhæft því að þetta snýst um breytingar á ýmiss konar lögum sem hafa verið gerðar og munu verða gerðar og svo getum við aldrei vitað alveg hvað gerist næst. Mér finnst við hafa náð einhvers konar lendingu, sérstaklega með því sem núna er verið að gera sem lýtur að því að lengja í frestum á því hversu lengi úrræðin gilda, og vona þar með að við séum að slá á óvissu Grindvíkinga, sem er mjög mikilvægt. Auðvitað er það bara mannlegt að vilja að hlutirnir gerist hratt og hraðar en okkur tekst kannski að vinna mál.