154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að það skiptir máli þegar við erum að glíma við svona stórt samfélagslegt verkefni að við gerum það saman. En við höfum reynslu af því að fara í gegnum heimsfaraldur og þar vorum við stöðugt í einhverju viðbragði. Við ættum kannski aðeins að læra betur af þeirri reynslu og reyna núna að plana aðeins fyrir fram. Hvað er það sem við vitum að mun ekki breytast, jafnvel þó að ekkert gerist og allt verði í góðu lagi eftir tvö ár í Grindavík? Og vera tilbúin með viðbrögð, a.m.k. búin að skipuleggja okkur og vita hvað við gerum næst, á milli gosa ef svo má segja. Það er ekki góð tilhugsun að hugsa til þess að við höfum núna verið í spretti með þessi frumvörp þrjú sem er til afgreiðslu síðar í dag og síðan muni stjórnvöld bara halla sér aftur í stólnum og bíða þangað til næsta akút tilfelli kemur upp.