154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að bregðast við þessu, að búa til einhvern blæbrigðamun eins og hv. þingmaður kom inn á. Bara til að halda því til haga þá finnst mér vera mjög mikil samstaða í nefndinni um þetta mál. Það sem við erum kannski að gera að umtalsefni er hversu litlu er svarað um allt hitt sem þetta frumvarp nær ekki utan um. Það er auðvitað tækifæri og tilefni til að tala um það hér vegna þess að það heyrir undir þessa nefnd, vegna þess að það er beintengt þessu frumvarpi, vegna þess að við þurfum að ræða um hvað við ætlum að gera fyrir öll hin fyrirtækin og allan hinn reksturinn sem þetta frumvarp nær ekki til. Þess vegna óskaði ég eftir því hér, og ég vona að hv. þingmaður geti tekið undir það með mér, að við fáum hæstv. ráðherra á fund til nefndarinnar strax að lokinni kjördæmaviku til að fara yfir hvaða vinna sé í gangi þegar kemur að t.d. atvinnuhúsnæði, því ég verð að segja það að ef hv. þingmaður veit ekki hvaða vinna stendur yfir og ég veit það ekki, þá vita atvinnurekendur í Grindavík það auðvitað ekki heldur. (Forseti hringir.) Það er kannski þessi óvissa — og það er ekki einu sinni búið að segja: Við ætlum að gera eitthvað og það kemur bráðum í ljós hvað það er, það er sirka svona. (Forseti hringir.) Á meðan ekkert slíkt liggur fyrir þá er auðvitað mjög mikil óvissa uppi.