154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[14:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Í frumvarpinu er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra verði skylt að stofna félag sem fái það hlutverk að ganga til samninga um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík í eigu einstaklinga sem falla undir gildissvið frumvarpsins og óska eftir því.

Frumvarpið felur í sér umfangsmesta stuðningsúrræði stjórnvalda fyrir Grindvíkinga hingað til í kjölfar náttúruhamfaranna frá því í haust. Hér er um að ræða mikilvægt skref í átt að því að eyða óvissu Grindvíkinga og tryggja búsetuöryggi þeirra. Þetta er lykilatriði. Það ber að árétta, frú forseti, að frumvarpinu er ekki ætlað að bæta einstaklingum tjón af völdum hamfaranna sem hafa orðið í Grindavík heldur gefa einstaklingum kost á að losna undan áhættu sem fylgir nú eignarhaldi íbúðarhúsnæðis í bænum og taka upp búsetu annars staðar, áhættu sem helgast af óvissu sem er um framvindu atburðanna. Markmiðið með úrræðinu er að losa einstaklingana undan þessari áhættu og færa áhættuna í félag í eigu ríkissjóðs. Þessu markmiði er ætlunin að ná með almennum viðmiðunum.

Ég vil geta þess að vinna nefndarinnar gekk mjög vel og ég vil þakka öllum nefndarmönnum fyrir mjög gott samstarf sem og starfsmönnum þingsins og líka fjármálaráðuneytisins sem lögðu sig bókstaflega fram dag og nótt við vinnu sína, að svara spurningum og afla gagna fyrir nefndinni og bregðast við athugasemdum sem komu.

Umfjöllunin um frumvarpið var sett í forgang í nefndinni en þess gætt líka að það yrði unnið eins vel og kostur var. Það var fundað með gestum og farið yfir þær umsagnir sem bárust og frá því er greint í nefndaráliti sem liggur frammi.

Ég ætla fyrst, frú forseti, að taka fyrir atriði er varða mörk frumvarpsins. Frumvarpið hefur það skýra markmið að ná til einstaklinga og fjölskyldna þeirra sem eiga íbúðir í Grindavík og hafa þar jafnframt lögheimili sitt. Þessu markmiði hefur almennt verið sýndur skilningur en þó hafa verið tjáð viðhorf um kaup á fasteignum í eigu lögaðila og á öðrum eignum í eigu einstaklinga. Þetta kom líka til umræðu í meðförum nefndarinnar á því frumvarpi sem var hér fyrr á dagskrá þingsins um tímabundinn rekstrarstuðning. Meiri hlutinn áréttar að tilgangur þessa máls er að tryggja búsetuöryggi fólks og eyða óvissu þeirra sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín í Grindavíkurbæ vegna náttúruhamfara. Frumvarpið nær þar af leiðandi hvorki til fasteigna í eigu lögaðila né til annarra eigna í eigu einstaklinga. Þessu tvennu, fasteignum og heimilum fólks annars vegar og fasteignum lögaðila eða öðrum eignum einstaklinga, verður ekki jafnað saman þannig að í felist einhver mismunun heldur búa mjög svo sterk og rík málefnaleg rök að baki þessu.

Frú forseti. Skv. 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er heimilt að víkja frá skilyrði um lögheimili ef tímabundnar aðstæður skýra að viðkomandi hafi ekki verið með skráð lögheimili í íbúðarhúsnæði. Þetta er undanþága frá þeirri meginreglu sem ég kom inn á áðan.

Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að umrædd heimild væri ekki nægilega skýr, þetta er vissulega matskennd regla, og það kynni að vera óljóst í sumum tilvikum hvort einstaklingar uppfylltu skilyrði þessarar undanþágu. Meiri hlutinn vill taka fram og árétta mikilvægi þess að gætt verði að búsetuöryggi þeirra sem eiga íbúð í Grindavík og tilgangi frumvarpsins verði náð, sem er að skapa forsendur fyrir öruggri framtíð fyrir Grindvíkinga og eyða þeirri óvissu sem náttúruhamfarirnar hafa haft í för með sér. Það er því nauðsynlegt að höfð sé hliðsjón af þessu markmiði við skýringu ákvæðisins og vafatilvik sem upp kunna að koma og ekki er hægt að útiloka verði skýrð í samræmi við það.

Frú forseti. Ég kem þá inn á atriði sem snýr að hámarki veðsetningarhlutfalls. Í umsögn sem nefndinni barst kom fram það sjónarmið að Grindvíkingum yrði veitt undanþága frá greiðslubyrðarhlutfalli Seðlabanka Íslands. Afborgun af láni mætti þannig vera allt að 40% af ráðstöfunartekjum í stað 35% eins og gildir um fyrstu kaupendur, og veðsetningarhlutfall mætti vera 85% í stað 80%. Meiri hlutinn bendir á að reglur um hámark heildarfjárhæðar fasteignaláns og greiðslubyrði þess í hlutfalli við tekjur neytenda eru settar af Seðlabanka Íslands að undangengnu samþykki fjármálastöðugleikanefndar. Meðan nefndin hafði þetta frumvarp til umfjöllunar upplýsti fjármálaráðuneytið að Seðlabanki Íslands hefði til skoðunar hvort umrædd heimild fyrir fyrstu kaupendur ætti jafnframt að ná til þeirra sem hafa selt íbúðarhúsnæði sitt á grundvelli þessa frumvarps og þeim lögum ef af verður. Þá er rétt að geta þess, frú forseti, að í morgun gaf fjármálastöðugleikanefnd út yfirlýsingu um að ákveðið hafi verið að rýmka tímabundið lánþegaskilyrði þeirra einstaklinga sem áttu íbúðarhúsnæði í Grindavík 10. nóvember 2023. Hámark greiðslubyrði verði 40% af ráðstöfunartekjum og hámark veðsetningarhlutfalls verði 85% fyrir þessa einstaklinga við næstu kaup þeirra á íbúðarhúsnæði.

Frú forseti. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um umgengnisrétt seljanda um eignir. Í greinargerð með frumvarpinu segir að ákvörðun þar að lútandi verði verkefni félagsins sem sinna muni umsýslu og rekstri eignasafnsins. Meiri hlutinn vill af þessu tilefni benda á að í reglugerðarheimild í 2. tölulið 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins er heimild til handa ráðherra að kveða á um umgengnisrétt seljanda innan þessara marka. Meiri hlutinn telur heppilegast að það verði gert í góðri samvinnu við seljendur og að jafnframt verði tekið tillit til þeirra sjónarmiða.

Ég vil þá koma inn á það sem snýr að aðkomu stjórnvalda, fjármögnun og uppsetningu þessa félags sem leiðir af 2. gr. frumvarpsins og varðar samkomulag um heildarlausn við eftirlitsskylda aðila á fjármálamarkaði. Með frumvarpinu er ráðherra heimilað að semja við lánveitendur fasteignalána í Grindavík um uppgjör á áhvílandi skuldum vegna kaupa á íbúðum. Fyrir liggja drög að samkomulagi um heildarlausn vegna fyrirkomulags kaupa og fjármögnunar íbúðarhúsnæðis í Grindavík. Með slíku samkomulagi er stuðlað að einfaldri lausn sem er bæði skiljanleg og sanngjörn og lágmarkar áhættu, lágmarkar heildarkostnað milli aðila eins og kostur er í réttu hlutfalli við undirliggjandi áhættu. Ákvæði frumvarpsins tóku mið af því að allir helstu lánveitendur íbúðarhúsnæðisins í Grindavíkurbæ yrðu aðilar að samkomulagi um þessa heildarlausn.

Frú forseti. Í ljósi þess hversu óvenjulegt og mikilvægt þetta mál er og í ljósi þeirrar fordæmalausrar stöðu sem er uppi í Grindavík eru því bundnar miklar vonir við að allir hlutaðeigandi aðilar á fjármálamarkaði verði aðilar að þessu samkomulagi. Það er eins og áður segir, þetta er samkomulag um heildarlausn og hún er einföld og hún er sanngjörn; að lágmarka kostnað í ljósi þeirrar áhættu og óvissu sem við búum nú við. Það leiðir þá af ákvæðum frumvarpsins, sér í lagi með vísan til 2. og 3. gr., að félagið tekur þá yfir áhvílandi veðlán í tengslum við slíkt samkomulag.

Ég vil næst víkja máli mínu að því sem snýr að Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Sú tilhögun, sem getið er í frumvarpinu, að ráðherra geti ákveðið að ráðstafa fjármunum úr Náttúruhamfaratryggingu Íslands til verkefnisins leiðir af þeirri miklu óvissu sem ríkir um endanlegt tjón vegna atburðanna í Grindavík og um þann kostnað sem ríkissjóður mun bera af völdum þeirra. Að þessu leytinu til er rétt að fram komi að frumvarpið felur í sér grundvallarbreytingu á meðferð eigna náttúruhamfaratryggingar því að samkvæmt lögum um náttúruhamfaratryggingu er ekki heimilt að ráðstafa eignum náttúruhamfaratryggingar til slíkra verkefna eða fjárfestinga, heldur er þeim fyrst og fremst ætlað að standa undir bótagreiðslum vegna vátryggðra eigna sem verða fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara. Að sama skapi mun heildarkostnaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands vegna atburðanna ekki liggja fyrir fyrr en þeim er lokið og tekist hefur að kanna ástandið í bænum til hlítar. Sambærileg óvissa hefur ekki ríkt við tjónaatburði til þessa. Því telur nefndin að um afar óvenjulega undantekningu og fordæmalausa aðgerð sé að ræða.

Til að tryggja fjárhagslegan styrk Náttúruhamfaratryggingar Íslands til framtíðar brýnir nefndin fyrir fjármála- og efnahagsráðherra að tryggja að þeir fjármunir sem ríkissjóður endurheimtir úr fjármögnun sinni á eignaumsýslufélaginu sem kveðið er á um í frumvarpinu verði greiddir til Náttúruhamfaratryggingar Íslands í samræmi við þá fjármuni sem ráðstafað verður úr tryggingunni til verkefnisins.

Þá telur meiri hlutinn brýnt að Alþingi hugi strax að framtíðarfjármögnun Náttúruhamfaratryggingar Íslands svo að stofnunin verði betur í stakk búin til að standa undir þeim lögbundnu skuldbindingum sínum að takast á við afleiðingar þeirra náttúruhamfara sem stofnunin vátryggir gegn í framtíðinni.

Herra forseti. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar framlengingar á frestum, annars vegar framlengingu á frest til að óska eftir sölu en í 5. mgr. 3. gr. frumvarpsins er lagt til að beiðni um kaup félags skv. 2. mgr. 2. gr. á íbúðarhúsnæði skuli berast eigi síðar en 1. júlí 2024. Í þó nokkrum umsögnum kom fram það sjónarmið að sá frestur væri of knappur, enda væru íbúar Grindavíkur að taka mjög stóra ákvörðun sem varðaði framtíð sína. Að þessu virtu og öðrum sjónarmiðum sem fram komu fellst meiri hlutinn á framangreind sjónarmið og leggur til að fresturinn verði framlengdur til ársloka 2024. Svo er önnur breyting sem kveður á um framlengingu á forgangsrétti þessu samfara. Í umsögnum sem nefndinni bárust var því hreyft og því velt upp hvort tveggja ára forgangsréttur skv. 4. gr. væri of skammur þar sem óvissa vegna náttúruhamfaranna kynni að vara lengur. Á þetta er hægt fallast. Það er ekki hægt að segja til með neinni vissu, herra forseti, hver framvinda þessa máls verður. Í ljósi þess að meiri hlutinn leggur til að frestur til að óska eftir sölu verði lengdur telur hann að réttast sé að forgangsréttur falli niður þremur árum eftir gildistöku laganna.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar takmörkun á ráðstöfun eigna sem háðar eru forgangsrétti. Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að það kynni að ganga gegn markmiðum frumvarpsins ef eignaumsýslufélagið hugaði að ráðstöfun eigna sem háðar eru forgangsrétti á meðan óvissa varir um framvindu jarðhræringa í Grindavíkurbæ. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II skal leggja mat á hvort skilyrði séu til að lengja frest til forgangsréttar. Komi til sölu eigna af hálfu félagsins áður en slíkt mat hefur farið fram kann forgangsréttarhafi að þurfa að taka afstöðu til þess hvort hann neyti réttar síns áður en slíkt mat hefur farið fram. Meiri hlutinn telur að slík staða, sama hversu líkleg eða ólíkleg hún kunni að vera, brjóti gegn markmiðum laganna og leggur til að við ákvæði til bráðabirgða II bætist nýr málsliður sem kveði á um að félaginu sé óheimilt að ráðstafa íbúðarhúsnæði sem háð er forgangsrétti skv. 5. gr. til annars en forgangsréttarhafa áður en slíkt mat hefur farið fram.

Þá er í þriðja lagi lögð til breyting er varðar eignaumsýslufélagið. Í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins segir m.a. að ákvæði stjórnsýslulaga gildi eingöngu um ákvarðanir félagsins sem varða kaup á íbúðarhúsnæði og um veitingu forgangsréttar. Þegar hins vegar kemur að ákvörðunum félagsins sem ekki koma fram í ákvæðum frumvarpsins eiga samþykktir þess og almennar reglur við. Meiri hlutinn telur því rétt að skerpa á skyldum félagsins og leggur til breytingu þess efnis að við einkaréttarlegar ákvarðanir skuli félagið hafa til grundvallar gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Auk þess telur meiri hlutinn að taka beri skýrlega fram að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með starfsemi félagsins, en ákvæði 4. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga munu samt sem áður gilda um endurskoðun á reikningum félagsins.

Þá er í fjórða lagi lögð til breyting er varðar búseturéttarhafa. Frumvarpið eins og það stendur tekur ekki til þeirra einstaklinga sem eiga búseturétt hjá leigufélögum. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að staða búseturéttarhafa sé þó að mörgu leyti áþekk stöðu þeirra einstaklinga sem eiga íbúðarhúsnæði í Grindavík. Meiri hlutinn telur því að umræddir einstaklingar eigi að falla undir gildissvið frumvarpsins og leggur því til breytingu þess efnis. Lagt er upp með að staða búseturéttarhafa verði samsvarandi stöðu einstaklinga á grundvelli frumvarpsins sem óska eftir því að eign sín verði keypt. Endurgjald fyrir búseturéttinn verði því 95% af framreiknuðu búseturéttargjaldi búseturéttarhafa.

Að lokum, herra forseti, er í fimmta lagi lögð til breyting er varðar undanþágu frá lögum um ríkisábyrgð. Eitt af markmiðum laga um ríkisábyrgðir er að ríkissjóður fái endurgjald fyrir veitta ábyrgð sem endurspegli þann ávinning sem ábyrgðin veitir tilteknu félagi. Lög um ríkisábyrgðir taka einnig fyrst og fremst til ákveðinna verkefna eða nýframkvæmda sem ríkissjóður tekur þátt í að fjármagna. Sú málsmeðferð og þau skilyrði sem kveðið er á um í lögunum eiga ekki vel við þegar kemur að því að veita einstaklingum aðstoð eins og kveðið er á um í þessu frumvarpi. Af þessum sökum er lagt til, svo það sé tekið skýrt fram, að lögin gildi ekki um þessa lánveitingu ríkisins til félagsins.

Þá eru einnig lagðar til í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar minniháttar eða lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Herra forseti. Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir og eru lagðar fram í sérstöku þingskjali.

Undir álit efnahags- og viðskiptanefndar rita auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Hildur Sverrisdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Oddný G. Harðardóttir með fyrirvara og Ásthildur Lóa Þórsdóttir með fyrirvara.

Herra forseti. Að lokum vil ég geta þess að þetta frumvarp er einn þáttur en stór og mikilvægur þáttur í heildaraðgerðum stjórnvalda til að bregðast við því hörmungarástandi sem hefur skapast í Grindavík vegna jarðhræringanna á Reykjanesi undanfarna mánuði. Það tekur til búsetuöryggi fólks. Fólki er veitt skjól frá þeirri miklu óvissu sem er uppi um framhald þessara atburða og jarðhræringa. En það er alveg ljóst að það eru mörg önnur úrlausnarefni sem bíða eins og hefur komið fram í umræðum í þinginu. Þau snúa að framtíð bæjarins, snúa að atvinnulífi, fasteignum lögaðila, öðrum eignum einstaklinga, getu fyrirtækja og forsvarsmanna þeirra í bænum til að taka ákvarðanir um framtíð sína og síns rekstrar svo stór og veigamikil atriði séu nefnd. Tímann næstu daga, vikur, jafnvel mánuði verður þá að nýta til að takast á við þessi atriði. Ég er þess fullviss að það verði gert og að okkur takist að ráða fram úr þessu mikla og sögulega verkefni. Ástæðan fyrir því að ég tel að svo sé er sá baráttuhugur sem einkennir Grindvíkinga og skýr vilji stjórnvalda, skýr vilji alls þingheims, allra viðbragðsaðila og allra sem koma að þessu máli með einum eða öðrum hætti — sá baráttuvilji til að takast á við þetta verkefni er skýr.