154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. nefndarmanni fyrir andsvarið og samstarfið í efnahags- og viðskiptanefnd. Það leiðir af því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans þar sem er brýnt fyrir Alþingi að huga strax að framtíðarfjármögnun NTÍ, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, í því felst að mínu mati, og ég segi það hér, að endurskoða verði iðgjaldið. Við þurfum líka að horfa til þess að það geti orðið sá atburður í Grindavík og í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesi að sjóðurinn tæmist, að það verði slíkt tjón að allar eignir hans hrökkvi ekki til. Þá er sú leið fær fyrir sjóðinn að taka lán með ríkisábyrgð. En við erum líka að horfa lengra inn í framtíðina, hvaða aðrir atburðir séu líklegir til að hljótast af þessum jarðhræringum á Reykjanesi, að Reykjanesskaginn sé vaknaður til lífsins. Þá held ég að það sé mjög brýnt fyrir íslenska þjóð að við séum að safna í svona náttúruhamfaratryggingarsjóð. Þess vegna tel ég að iðgjaldið hljóti að koma til skoðunar, aðrar viðmiðunarreglur sem gilda, hlutfall af brunabótamati allra fasteigna á landinu að því hámarki sem sjóðnum ber að vátryggja.

Hv. þingmaður kom líka inn á aðra ábendingu sem meiri hluti nefndarinnar gerir sem er um að skattlagning sjóðsins vegna fjármagnstekna fari þá eftir sambærilegum reglum og gilda um aðrar viðlíka stofnanir á vegum ríkisins. En það er rétt líka að það komi fram að nefndin brýnir það fyrir fjármála- og efnahagsráðherra að verði endurgjald í félaginu af eignunum þá (Forseti hringir.) renni það til náttúruhamfaratryggingarsjóðs í samræmi við það sem er tekið út úr honum, ef til þess kemur að það sé tekið úr honum.