154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar og fyrir mitt leyti er það alveg skýrt að ég tel skynsamlegt að byggja upp sjóðinn til að mæta framtíðaráföllum sem geta dunið yfir hér á Íslandi. Það sem verið er að vísa hérna til, minn skilningur er sá að það er óvissa uppi um hversu mikið tjónið verður sem sjóðnum ber að bæta og hversu mikill kostnaður ríkisins verður með þessum aðgerðum eða vegna annarra aðgerða vegna jarðhræringanna í Grindavík. Þannig að ég tel að þessi setning verði þá frá frumvarpshöfundi að skýrast í því ljósi hvert samspilið verður á milli kostnaðar af hálfu ríkissjóðs á móti bótagreiðslum frá náttúruhamfaratryggingarsjóði.