154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[15:49]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langaði að byrja á því einmitt að árétta það, sem kom fram svo sem líka í máli hv. þingmanns, að þrátt fyrir að það sé greint á um tiltekin útfærsluatriði í þessu máli og fleirum sem eru hér til umræðu þá er alveg ljóst að það er gríðarleg samstaða um það að grípa til aðgerða og ég held að það sé mjög mikilvægt að halda því til haga. Mig langar að spyrja hv. þingmann út frá því sem hún hefur nefnt hér í dag, en nú er samkvæmt þeim viðmiðum sem búið er að komast að niðurstöðu um miðað við 95% af brunabótamati. Hv. þingmaður nefndi að hún hefði frekar viljað sjá 98% og mig langar svolítið til að spyrja því að einhverju leyti skortir mig skilning á því hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig almennt, þessar hamfaratryggingar og annað er eitthvað sem ég er að setja mig inn í fyrsta skipti eftir þessar hamfarir í Grindavík. En spurningin er samt sem áður einföld: Hvers vegna ekki 100%? Nú hef ég skilið svokallaða sjálfsáhættu eða sjálfsábyrgð þegar kemur að tryggingum með þeim hætti að það sé talið eðlilegt að fólk beri einhverja ábyrgð á því að hlutur þeirra verði fyrir tjóni og þá er svolítið horft til þess að með athöfnum okkar og öðru getum við kannski dregið úr og aukið líkurnar á því að hlutirnir verði fyrir tjóni. En þarna erum við með eitthvað sem er algerlega úr höndum fólks. Þannig að ég velti svolítið fyrir mér bara almennt grunnrökunum fyrir þessari sjálfsábyrgð, og þakka hv. þingmanni fyrir fram fyrir að leiða mig í sannleikann um þetta.