154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[16:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hef svo sem bara eina stutta spurningu í seinna andsvari sem snýr að framhaldinu. Hv. þingmaður talaði um að fylgjast með framvindu þessa máls en ég held að við þurfum líka að hafa augun opin fyrir stærra neti sem við getum kastað utan um fleiri þætti þegar kemur að Grindavík. Ég hef minnst á hér í ræðum mínum í dag að mér þætti eðlilegt að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kæmi fyrir nefndina strax að lokinni kjördæmaviku til að fara yfir hvaða vinna er í gangi í fjármálaráðuneytinu gagnvart t.d. atvinnuhúsnæði og öðru sem hv. þingmaður sagðist hafa vonir um að væri í vinnslu, sem mér finnst gefa til kynna að hann sé álíka óviss og ég hvort sú vinna sé í gangi yfir höfuð eða ekki. Þannig að mér finnst mjög mikilvægt að fá hann fyrir nefndina og ég myndi vilja heyra frá hv. þingmanni hvort hann styðji ekki þá beiðni.