154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[17:53]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Það eru auðvitað fjölþættar aðgerðir sem þarf að grípa til. Það er alveg rétt, ég talaði um það hér í minni ræðu að það þyrfti að huga að framboðshliðinni, þ.e. framboði á húsnæði. Spurning hv. þingmanns sneri kannski að því hvort það væru til einhverjar leiðir til að auka framboð á húsnæði sem væru minna til þess fallnar að auka á þensluna heldur en að halda bara áfram að byggja eins og við höfum gert með öllum þeim tilkostnaði sem það óhjákvæmilega hefur í för með sér. Það er örugglega til í dæminu að hægt sé að byggja með ódýrari hætti heldur en við höfum verið að gera og við þurfum auðvitað að skoða hvað er í stöðunni þar. Ég veit að hæstv. innviðaráðherra hefur verið að skoða það og aðrir hv. þingmenn hafa talað um það hér líka. Þannig að jú, vissulega er það einn af þeim hlutum sem við þurfum að skoða. En við þurfum líka að skoða, eins og var nefnt í ágætu andsvari hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar hérna áðan, sértækar aðgerðir þar sem við drögum með einhverjum hætti úr peningaflæðinu í umferð, þ.e. með sértækum aðgerðum á skattahliðinni í ríkisfjármálunum. Við þurfum að skoða hvort það sé einhver leið til þess hugsanlega að draga úr þenslunni þannig að það sé kæling á markaðnum á einhverjum öðrum stað sem myndi skila sér í því að halda aftur af verðbólgunni. En ég vil taka heils hugar undir það með hv. þingmanni að við þurfum vissulega að gera átak á framboðshliðinni.