154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[18:13]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langaði bara rétt að koma upp til að nefna kannski hið augljósa í þessari vinnu en það hefur verið gott að finna einhuginn í nefndinni um það markmið sem hér er verið að framfylgja og einhuginn um ekki síður þann þátt málsins að það verði ríkisins að fjármagna þann skaða sem við okkur blasir í kjölfar náttúruhamfaranna í Grindavík.

Ég ætlaði síðan að öðru leyti að vera samkvæm sjálfri mér, kannski ekki á ósvipuðum slóðum og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, og ræða stuttlega um stóru myndina. Auðvitað er það skiljanlegt í samhengi hlutanna að við séum hér 22. febrúar að líkindum að fara að ganga til atkvæða um mál sem kom til umfjöllunar í fjárlaganefnd 19. febrúar. Það er ekki langur tími. Eins og ég segi, það er skiljanlegt í samhengi hlutanna og það er auðvitað mjög skiljanlegt í samhengi hlutanna að við stöndum frammi fyrir því að fjármagna stærri bita. En ég trúi því að við værum betur stödd í verkefnum sem þessum ef við værum markvissari í því gegnumgangandi í allri vinnu fjárlaganefndar að vera með stóru myndina undir, að reyna að gæta að því í öllum okkar skrefum að skoða leiðir til þess að fara betur með fé skattborgaranna, að við séum að rýna rekstur og rýna forgangsröðun.

Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi hérna að við værum víða komin að þolmörkum og það er alveg rétt. Ég tek heils hugar undir upptalningu hans; löggæslu, menntamálin, heilbrigðismálin og svo víðar. Það breytir ekki því að það má rýna reksturinn í öllum þeim stofnunum sem ríkið rekur.

Ég vildi kannski nefna þetta með þá stöðu sem mér finnst við stundum vera í, nefndarmenn í fjárlaganefnd, gagnvart Stjórnarráðinu, gagnvart ráðuneytunum, hvað varðar upplýsingagjöf og frumkvæði þar um. Hér er í nefndaráliti rakið að við höfum fengið minnisblað með viðbótarupplýsingum. Það eru upplýsingar sem við fáum eftir að við óskum sérstaklega eftir þeim. Þetta er ég ekki að nefna í einhverjum sérstökum leiðindum. Ég átta mig auðvitað á því að ráðuneyti eru í nákvæmlega sömu stöðu og Alþingi hvað þetta varðar, að málin eru að vinnast hratt, en við sjáum þetta í öðrum málum líka og mér finnst það ekki vera bundið við einn ráðherra eða eitt ráðuneyti. Ég held að þetta sé eitthvað sem eigi að skoða um að það sé betri skilningur á því að það þurfi að vinna leikfléttuna alla leið, frá ráðherra, inn í ráðuneyti, til þingsins, til að það liggi fyrir skjalfest skref fyrir skref hvað var verið að ræða, á hvaða forsendum var verið að taka ákvarðanir og atriði eins og hér þegar við erum að ræða lántökur á verðbólgutímum, erum við að ræða um lántöku innan lands eða í erlendri mynt? Erum við að sækja nýtt fjármagn inn í hagkerfið að utan? Það er ekki ágreiningur um að það þurfi að sækja lánsfé en ég staldraði við það hversu lítið við fengum að sjá á spilin um það hvernig eigi að sækja fjármagnið, innan lands eða utan, hvaða peningar þetta eru, því við erum auðvitað líka að fást við þetta stóra verkefni núna sem er verðbólgan og við vitum, eins og hv. formaður nefndarinnar hefur farið ágætlega yfir, að þetta fjármagn mun hafa áhrif úti í samfélagi. Ég vildi bara nefna þetta í þessu samhengi. Mér finnst það skipta máli, það er kannski lögfræðingurinn í mér, þegar við skoðum hvernig lagasetningin verður til, að það á að vera hægt að rekja sig áfram um það á hvaða forsendum ákvarðanir voru teknar.

Ég er ósammála þeim þingmönnum sem hér hafa komið upp og talað um, sem mér finnst alltaf dálítið kómískt orðalag, aðgerðir á skattahliðinni, sér í lagi þegar verið er að tala um aðgerðir á skattahliðinni sem þýða auknar skattheimtur á almenning í landinu, á heimilin í landinu, að það sé hið eina svar um það þegar við erum að tala um fjármál ríkisins. Það á að vera markmið okkar að tala líka um það hvernig við sýnum fjármunum almennings þá virðingu að við forgangsröðum, að við skoðum og rýnum rekstur og séum markviss í því, alltaf. Það er líka almannahagsmunamál að við verjum peningunum fyrst í brýnustu verkefnin, og hér erum við sannarlega að tala um eitt þeirra, að við förum vel með fjármuni almennings en séum ekki eilíflega að tala um kreatífar nýjar lausnir um það hvernig við ætlum að sækja skattfé til fólksins í landinu.