154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[18:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mín skoðun er sú að það sé ekki hægt að blanda þessu tvennu saman á þessum tímapunkti. Við getum ekki og það er ekki boðlegt að láta íbúa í Grindavík bíða meðan Alþingi Íslendinga ætlar að fara að ræða hér um fiskveiðistjórnarkerfið og hvernig skattheimtan á að vera þar. Ég held því miður að sú umræða myndi taka langan tíma og við höfum þann tíma ekki, enda hefur frumvarp nú verið boðað hér af hálfu matvælaráðherra þar sem á að endurskoða þá hluti. Það er rétt að við fórum í skattlagningu hér fyrir jól, m.a. þegar varnargarðarnir voru settir upp. Varnargarðarnir komu hins vegar í fjárauka fyrir árið 2023, þeir voru þar inni. En mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann að spurningu sem eiginlega skaust niður í kollinn á mér. Ég hef hlustað á hv. þingmann hér í allmörgum ræðum og nú talar hv. þingmaður um að hann vilji hækka bankaskatt um 30.000 milljónir. Hvernig heldur hv. þingmaður að sú framkvæmd eða sú aðgerð myndi gagnast í þeirri umræðu sem hv. þingmaður hefur oft haft hér uppi í þessum stól um að auka fjölbreytileika og fjölga hér bankastofnunum og fá erlenda banka til Íslands til þess að auka samkeppni? Heldur hv. þingmaður að slík aðgerð, að auka bankaskatt um 30.000 milljónir, muni auka líkurnar á því sem hann hefur rætt hér ítrekað, að fá erlendar bankastofnanir hingað til þess að auka samkeppni á íslenskum bankamarkaði?