154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[18:40]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Ég tel að ástæðan fyrir því að erlendir bankar séu ekki að koma til Íslands vera mikið til vegna þess að þeir treysti ekki þessu umhverfi sem er hér í gangi, þessu stjórnsýsluumhverfi. Það sem er vandamál á Íslandi er samkeppnisleysi. Rökin gegn bankaskatti geta verið þau að jú, þetta eru bankar að hluta til í ríkiseigu og ríkið geti fengið þetta með arðgreiðslum frá Landsbankanum og að hluta til frá Íslandsbanka. Það er ekki samkeppni, þeir eru með sjálftökuhagnað og ríkið getur tekið þetta þar. Þá er það hinn helmingurinn sem greiðir sjálfum sér, sem eru einkaaðilarnir. Það eru rökin fyrir bankaskatti. Vissulega er nýkominn nýr banki sem heitir Indó sem er frábær stofnun og ég vona að það komi fleiri svona smábankar í samfélagið, það er mjög mikilvægt. Ég tel að við þurfum að stokka upp íslenskt fjármálakerfi, verðtryggðu lánin, samkeppnisleysið og aðgengi fjármálastofnana inn á markaðinn. Það þarf að skoða þetta allt saman svo það liggi fyrir. Ég er talsmaður þess að það komi erlendir bankar hingað. Það er ekki út af krónunni, það er ekki krónan sem stendur í vegi fyrir því vegna þess að a.m.k. þessir bankar sem starfa í Skandinavíu eru vanir að starfa á mismunandi gjaldmiðilssvæðum og minnsta mál í heimi að taka afleiður til að taka þá áhættu burtu.

Þar sem ég er með orðið núna þá tel ég mikilvægt að nefna að miðað við upphaflega frumvarpið til fjáraukalaga sem hér er til umræðu þá höfum við farið frá því, til að hægt sé að framkvæma það sem fram kemur í frumvarpinu sem liggur fyrir efnahags- og viðskiptanefnd um uppkaupin þar sem segir að það hafi verið þörf á þessum viðbótarheimildum, en svo í minnisblaðinu stendur: „Enn er óvíst að hversu miklu leyti þörf verði fyrir að nýta viðbótarheimildina“, sem Alþingi mun líklega veita hér seinna í vikunni eða í byrjun næstu viku. Þannig að þar sem var þörf er núna óvíst. Við skulum vona að það verði ekki þörf á að nota þessa viðbótarheimild og við getum haldið áfram baráttunni gegn verðbólgunni. Þá getum við haft fjármálastofnanir sem starfa í samkeppni í samfélagi þar sem er ekki óðaverðbólga (Forseti hringir.) og það er ekki verið að taka af lántökum hrikalegar fjárhæðir með háum stýrivöxtum.