154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[19:56]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Vandi Grindvíkinga er mikill, hann er margslunginn, óvissan er mikil og eðlilega eru þær lausnir sem stjórnvöld boða margbreytilegar líka. Vandi atvinnulífsins er mikill. Það er töluverð óvissa. Þetta frumvarp er einn liður í því að koma til móts við þá stöðu sem uppi er, gefur fyrirtækjum færi á að fá súrefni til að huga að næstu skrefum í sinni starfsemi og hvað kemur til. Það er rétt sem hér hefur komið fram, gott starf unnið í nefndinni og það er skilningur á því að það er í mörg horn að líta. Þetta er tímabundið úrræði en ég held að allir í nefndinni og þingheimur allur sé meðvitaður um að á næstu dögum, vikum og mánuðum muni þessi mál jafnvel skýrast eitthvað frekar og hvaða lausnir og úrræði verða til boða. Sjálfstæðisflokkurinn styður þetta mál og fleiri sem á eftir koma.