154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[20:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni gríðarlega mikilvægt mál sem við höfum unnið að hörðum höndum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að klára hratt og vel. Það tekur til ákveðins afmarkaðs hluta fasteigna í Grindavík og býður uppkaup innan þriggja ára og það er innan þriggja ára vegna þess að samkomulag náðist um það innan nefndarinnar að framlengja þennan forgangsrétt. Það var líka ákveðið að framlengja umsagnarfrestinn til að fá þetta úrræði. Það er bara mjög vel og ég vil hrósa nefndinni fyrir að hafa tekið vel í þær ábendingar sem fram komu. Þingflokkur Pírata styður þetta mál heils hugar en við gerum athugasemdir við þá leið sem er valin til þess að fjármagna þetta úrræði. Við hefðum viljað fara aðra leið í þeim efnum en teljum auðvitað fullt tilefni til þess að fjármagna þetta úrræði, svo að það komi algerlega skýrt fram aftur. Þar sem ég er búin á tíma, herra forseti, leyfi ég mér bara að fagna þessu frumvarpi aftur og þakka nefndinni fyrir gott samstarf.