154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[20:22]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er afar þýðingarmikið mál, það þýðingarmesta í þágu Grindvíkinga til þessa leyfi ég mér að segja. Tilgangur frumvarpsins og markmiðið er mjög skýrt. Þau efnisatriði sem liggja til grundvallar í frumvarpinu og þær breytingartillögur sem meiri hluti efnahagsnefndar er að gera eru málefnalegar, eru sanngjarnar. Brunabótamatið á sér tilvísun til laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Það er sanngjarnt. 95% talan er sanngjörn í ljósi þess, herra forseti, að þetta er ekki endilega endahnútur í uppgjöri gagnvart fólki. Það mun hafa forgangsrétt í þrjú ár og það er skýr skylda á félagi í eigu ríkisins að sjá um og viðhalda fasteignunum meðan þetta óvissuástand ríkir. Þetta er lykilatriði í þessu frumvarpi. Það eru lögð almenn viðmið. Ég held, herra forseti, að í góðu samstarfi hér í nefndinni og á þingi þá séum við að ná afar farsælli niðurstöðu.