154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[20:24]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég fagna þessu máli sem er svar við ákalli fólks sem fann sig í þeirri stöðu að óska þess að missa heimili sín til þess eins að losna við óbærilega óvissu. Þetta er mikilvægt mál sem mun breyta miklu fyrir fjölda fólks en það leysir ekki allan vanda. Þetta er, eins og hér hefur komið fram, eitt skref af mörgum. Ástæðan fyrir því að við erum að taka þessi mál eitt skref í einu er vegna skorts á heildarsýn, skorts á sviðsmyndum sem rétt hefði verið að teikna upp fyrir fram. Þetta er óvenjuleg staða. Fólk horfir upp á eignir sínar verða verðlausar á einni nóttu án þess að vera ónýtar. Samstaðan hér á þinginu er algjörlega frábær og hún er augljós þótt útfærslur geti verið ýmsar. Það er augljóst að við erum öll á sama máli um að hjálpa fólki í þessari stöðu.