154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[21:39]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér erum við að afgreiða frumvarp til fjáraukalaga sem felur í sér lánveitingarheimild til að taka allt að 30 milljarða lán til að geta staðið í þeim aðgerðum sem við vorum að klára 2. umræðu um gagnvart kaupum á húsnæði í Grindavík. Þó að ég styðji heils hugar þær aðgerðir þá hef ég efasemdir um að lántaka fyrir þessum aðgerðum sé hentug leið til að bregðast við. Auðvitað á samfélagið að taka á sig þetta högg, en í ljósi þess verðbólguástands sem hér er uppi ætti að slá á þensluna að mínu viti með sértækum sköttum, t.d. hvalrekaskatti eða hækkun fjármagnstekjuskatts eða einhvers slíks sem myndi, í staðinn fyrir að gera ríkisfjármálin hlutlaus, eins og til stendur með þessari aðgerð gagnvart verðbólgunni, vinna í því að slá á hana. Það myndi ekki vinna gegn yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar, sem hefur eiginlega bara verið hlutlaus (Forseti hringir.) þegar kemur að verðbólgunni í yfirlýstum markmiðum sínum um að berjast gegn henni.