154. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2024.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

27. mál
[23:36]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég ætlaði rétt að nýta þessa seinni ræðu mína til að klára mál mitt sem mér tókst ekki alveg að klára áðan. Þær breytingar sem skipta einna mestu máli eru breytingar á meðferð ákveðinna krafna sem standa utan greiðsluaðlögunar. Eins og kemur fram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Lagt er til að heimilt verði að kveða á um tiltekna meðferð krafna sem heyra undir þessa stafliði þrátt fyrir að um sé að ræða kröfur sem standa utan greiðsluaðlögunar. Þessar kröfur eru fésektir, kröfur vegna virðisaukaskatts, kröfur um afdregna vangoldna staðgreiðslu opinberra gjalda, kröfur um skaðabætur vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi og meðlagskröfur. Með breytingunni verður því heimilt að ákveða í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun að greitt verði af hlutaðeigandi kröfum í samræmi við hvernig greitt er af óveðtryggðum kröfum skv. 21. gr. laganna.“

Svo vil ég grípa hér niður, með leyfi forseta:

„Þá er lagt til að virkar kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga á námslánum teljist ekki kröfur vegna námslána og séu því kröfur sem falli innan greiðsluaðlögunar á sama hátt og almenn skuldabréf sem stofnuð eru vegna vanskila á námslánum, ofgreiðslu námslána og markaðskjaralána.“

Þessar breytingar koma sér sérstaklega vel fyrir ákveðinn hóp einstaklinga og ég held að þeim beri sérstaklega að fagna. Því miður gefst ekki tími til að fara yfir aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og læt ég því staðar numið. Ég fagna þessum breytingum og fagna þessum lögum. Sem fyrr segir tel ég þessi lög vera eitt farsælasta úrræðið til að aðstoða fólk í vandræðum hér á landi. Þessar breytingar eru til bóta.