154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

grunnskólakerfið á Íslandi.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir spurninguna og vil fagna áhuga Viðreisnar á menntamálum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð setti menntamál líka á oddinn í kjördæmaviku og við heimsóttum framhaldsskóla hringinn í kringum landið. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni að þessi málaflokkur á miklu meiri athygli skilda vegna þess að við erum búin að vera að ganga í gegnum miklar samfélagsbreytingar. Þær er ekki bara hægt að skrifa á menntamálaráðherra hverju sinni og þær er ekki hægt að skrifa á ríkisstjórnina. Þótt hér hafi hlutfall innflytjenda hækkað frá árinu 2012 þá hefur það auðvitað aukist verulega, farið úr því að vera tæplega 8% upp í tæplega 19%. Það er auðvitað mikil breyting og við sjáum það á PISA-könnunum að börn innflytjenda standa verr að vígi vegna þess að íslenska er ekki þeirra móðurmál. Það þarf að gera miklu betur í inngildingu. Það höfum við sagt með skýrum hætti. Hæstv. mennta- og barnamálaráðherra er hér með frumvarp sem varðar hlutverk nýrrar mennta- og skólaþjónustustofnunar á sviði inngildingar sem er komið í samráð vegna þess að við sjáum að þar þarf að bregðast við.

Ég vil segja það hins vegar að það er ekki það eina. Við erum auðvitað að ganga í gegnum tæknibreytingu sem hefur gerbreytt umhverfi barna og ungmenna sem við höfum ekki brugðist við með viðunandi hætti þegar til að mynda kemur að lesskilningi og friði til að sinna lærdómi í heimi þar sem áreiti er allt annað en það var fyrir tíu árum, fyrir 15 árum. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við ætlum að gera skólunum okkar kleift að takast á við þá breytingu sem er komin til að vera, við snúum henni ekki við. Þetta er eitt af því sem er rætt mjög víða þannig að þetta snýst ekki bara um að nemendahópurinn sé orðinn fjölbreyttari, samfélagið hefur tekið breytingum (Forseti hringir.) og við þurfum að sjálfsögðu að velta því fyrir okkur og setja þessi mál á dagskrá, (Forseti hringir.) ekki bara í grunnskólunum heldur í raun og veru alveg frá leikskóla og upp í háskóla. Reyndar — ég gæti verið hér lengi og talað. (Forseti hringir.) Ég fæ tvær mínútur til að svara en ég kem aftur á eftir og held áfram.