154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

grunnskólakerfið á Íslandi.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég nefni og ítreka nýja mennta- og skólaþjónustustofnun sem snýst nákvæmlega um þetta, að veita skólum á öllum skólastigum aukinn stuðning við að takast á við þetta mikilvæga verkefni. Ég nefni frumvarp sem snýst um inngildingu og snýst um það hvernig við getum betur mætt þeim sem eru ekki með íslensku að móðurmáli. En ræðum líka okkar tíð, mína og hv. þingmanns, í menntamálaráðuneytinu, því í tíð hv. þingmanns voru sett mjög framsækin lög sem fólu í sér mjög mikið faglegt sjálfstæði skóla og í minni tíð í menntamálaráðuneytinu voru settar námskrár sem staðfestu þessa stefnu. Við þurfum líka að horfast í augu við það að til að mynda á framhaldsskólastigi, þar sem er mikið faglegt sjálfstæði, mikil dreifstýring, er á sama tíma ekki í boði námsefni sem styður kennara til þess að geta unnið í raun og veru innan þessa ramma sem við veittum þeim. Þar er í raun og veru bara námsbókamarkaður þar sem því er mætt þar sem nægjanlega margar bækur seljast. Það er ekki ríkið sem kemur að því og styður þannig við kennara og það er eitt sem við heyrum í hverjum einasta framhaldsskóla: (Forseti hringir.) Okkur vantar námsgögn. Þar er það bara markaðurinn sem á að sjá um þetta (Forseti hringir.) og hann er ekki að mæta þessu dreifstýrða og flotta kerfi þar sem við fólum kennurum og skólum að vera faglega sjálfstæðir (Forseti hringir.) en auðvitað þurfa þau stuðning til þess. (Forseti hringir.) Ég held að við hv. þingmaður þurfum meiri tíma síðar fyrir þessa umræðu.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum er tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari ræðu.)