154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[18:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar við 1. umræðu þessa máls hæstv. dómsmálaráðherra að fara í gegnum þau atriði sem ég held að sé mikilvægast að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki til skoðunar. Það er ekki hægt annað en að tæpa aðeins á sögunni í þessu samhengi. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps. Þó að mér þyki það ganga of skammt hvað það varðar að draga úr þessum séríslensku málsmeðferðarreglum og þessum seglum, eins og þeir eru kallaðir, þá held ég að heilt yfir sé málið til bóta. Þingflokkur Miðflokksins mun styðja það, komist það til lokaatkvæðagreiðslu, sem er auðvitað ekkert öruggt í því samhengi sem við horfum á þegar horft er til þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við völd.

Ég vil minna á að þingmenn Miðflokksins studdu á síðasta þingi litla útlendingafrumvarpið sem þá fékkst samþykkt í fimmtu tilraun, ef ég man rétt, eftir að hafa verið útþynnt ár eftir ár. Niðurstaða þess var sú að sá litli árangur sem náðist var sleginn af nokkrum vikum eftir lögfestingu með aðgerðum hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sem núllaði út þau áhrif sem þá náðust fram. Kálið er því ekki sopið þó að í ausuna sé komið, ef svo má segja, þegar ríkisstjórnin er jafn ósamstæð og hún er í þessum málaflokki.

Það hefur réttilega komið fram í umræðunni gagnrýni á að öllu sé grautað saman í þessari umræðu, að það sé verið að grauta saman verndarkerfinu annars vegar og síðan vinnumarkaðsmálunum hins vegar. Ég tek undir þá gagnrýni og ég held að það sé að mörgu leyti verið að gera þeim mikinn óleik sem eru í raunverulegri neyð og þurfa á aðstoð verndarkerfisins að halda að þessu sé grautað saman með þessum hætti. Ég held að fyrir málið allt, fyrir alla þá sem í mestri neyð eru og fyrir okkur hér í þinginu sem ræðum þessi mál og setjum reglurammann væri það til mikilla bóta ef við næðum að einbeita okkur að því að ræða vandann sem er raunverulega verið að takast á við, sem er mikill fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd.

Komið hefur fram að stjórnarandstaðan hefur þvælst fyrir því að málaflokkurinn hafi færst til skynsamlegri vegar á undanförnum árum. Ég hef í einhvern tímann tekið þátt í umræðum sem hafa dregist á langinn og ég man ekki eftir öðru en því að þegar ríkisstjórnin hefur ætlað sér að klára mál þá hafi hún klárað þau mál. Það er bara þannig að ríkisstjórnin hefur aldrei klárað stærri breytingar á útlendingalöggjöfinni. Það þýðir auðvitað ekkert annað en að hugur fylgdi ekki máli. Ég dreg ekki í efa að dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins á fyrri stigum hafi verið áhugasamir um að breyta regluverkinu og laga það að sínu höfði, að sínum skoðunum, en hugur fylgdi ekki máli, og þá meina ég hjá ríkisstjórninni. Mál voru samþykkt í gegnum ríkisstjórn, stoppuðu svo og svo lengi í stjórnarflokkunum og meira og minna gerðir fyrirvarar við allar afgreiðslur.

Ég rifja það upp hér að það liggur ekki enn þá fyrir hvort fyrirvari er við afgreiðslu málsins úr þingflokkum Framsóknarflokks og Vinstri grænna, sem skiptir auðvitað máli fyrir þingmenn sem taka málið til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég er bara ekki með mælendaskrána á hreinu, hvort það eru fulltrúar hér á leið í ræðu frá annars vegar Framsóknarflokknum og hins vegar Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Jú, það er nikkað hér í hliðarsal þannig að ég gef mér að fulltrúar þeirra flokka láti okkur vita af því hvort einhverjir fyrirvarar séu við afgreiðslu málsins út úr þingflokkunum tveimur því að það skiptir máli. Eins og ég segi þá er óboðlegt ef við þingmenn sem eigum að fjalla um málið í allsherjar- og menntamálanefnd fáum upplýsingar um fyrirvara eftir dúk og disk og oft á tíðum og mögulega þegar afgreiðsla málsins nálgast.

Það kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrr í dag hjá hæstv. ráðherra að ráðherrann áætlar að leggja fram frumvarp til nýrra útlendingalaga. Ég skildi það þannig að það væri heildarlöggjöf en mögulega er það annað breytingafrumvarp eins og er mælt fyrir í dag. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir að hún sæi fyrir sér að leggja slíkt fram næsta haust með þeim breytingum sem ekki koma fram í því frumvarpi sem nú er til afgreiðslu. Ég kem þá á eftir inn á þau atriði sem féllu út á milli þess tíma er málið var í samráðsgátt í drögum og til framlagningar hér í þinginu.

Það að hæstv. ráðherra áætli framlagningu nýrra útlendingalaga á kosningaþingi fær mig til að hugsa hvort enn sé verið að veita bjartsýnisverðlaun Brøstes því að líkurnar á því að ný útlendingalög verði samþykkt og afgreidd, ný heildarlög, á kosningaþingi, eru engar, bara núll. Þetta þarf að gerast núna ef það á á annað borð að gerast á líftíma þessarar ríkisstjórnar. Ég lýsi því hér yfir, eins og ég sagði áðan, að þingflokkur Miðflokksins mun styðja þetta mál eins og það kemur fyrir, komist það til lokaatkvæðagreiðslu og í öllu ferlinu, en við munum jafnframt leggja fram breytingartillögur sem við teljum vera til bóta og að einhverju marki færa málið nær því þegar það lá í samráðsgátt á sínum tíma og mögulega leggja til að við drögum enn úr þessum séríslensku málsmeðferðarreglum, sem mér heyrist vera orðin mikil sátt um hér í salnum svona til þess að gera, að hafi raunveruleg áhrif, mikil áhrif á fjölda þeirra umsókna sem hingað berast.

Ég held að það sé fullkomlega óraunsætt hjá hæstv. ráðherra að ætla að leggja fram ný heildarlög, jafnvel þó að það yrðu bara breytingalög, á kosningavetri sem gengur í garð næsta haust, síðasti þingvetur þessa kjörtímabils. Ég hvet bara hæstv. ráðherra til að styðja við þær breytingar sem lagðar verða til í nefndinni. Hvort sem meiri hluti verður fyrir þeim innan nefndarinnar eða ekki munu þær komast hér til atkvæðagreiðslu og þá fá þingmenn tækifæri til að sýna hver afstaða þeirra er til hinna séríslensku málsmeðferðarreglna sem hafa komið okkur í þær ógöngur sem við erum í nú um stundir í þessum málaflokki.

Ég get ekki annað en eytt nokkrum orðum í að ræða svokallað samkomulag ríkisstjórnarflokkanna sem birtist á vefsíðu Stjórnarráðsins nýlega, ætli það hafi ekki birst föstudaginn fyrir kjördæmaviku, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin sammæltist í dag um aðgerðir í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda.“

Svo eru hér fjórar blaðsíður með hóflega stóru letri þar sem er farið er yfir hvað ríkisstjórnin ætlar sér að gera og maður hlýtur auðvitað að spyrja sig: Af hverju ekki núna? Þetta er eins og hefur verið í svo mörgum málum, það er verið að ýta ákvörðunartökunni, ýta því aftar í tíma að ríkisstjórnin lendi í því að standa augliti til auglitis við sig sjálfa. Við sjáum málsgreinar hér inni sem hafa verið felldar í frumvörpum sem komið hafa fram á fyrri stigum. Ég tek bara sem dæmi hér, með leyfi forseta:

„Til að tryggja framboð á húsnæði verður afgreiðslu frumvarps lokið um tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf sem gerir Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum, f.h. Vinnumálastofnunar, kleift að taka á leigu og nýta húsnæði, sem ekki hefur verið ætlað til búsetu, undir tímabundna búsetu flóttafólks.“

Þetta regluverk var hanterað með þeim hætti á síðasta þingi að mér er til efs að það sé raunveruleg meining eða raunveruleg trú nokkurs við ríkisstjórnarborðið sem samdi þennan texta, að það fari hér í gegn. Þetta er vont mál sem þarna er sagt að eigi að koma á rekspöl. Ætli þetta hafi ekki verið málsgrein sem Framsóknarflokkurinn fékk inn í þessar fjórar blaðsíður?

En það er fleira í þessum sameiginlega skilningi ríkisstjórnarinnar. Hér er önnur, með leyfi forseta, af handahófi:

„Ráðist verður í breytingar á regluverki á sviði verndarmála til samræmingar við löggjöf á Norðurlöndum, m.a. afnám séríslenskra málsmeðferðarreglna, lengd dvalarleyfa og skilyrða á rétti til fjölskyldusameininga.“

En þetta lá allt fyrir þarna. Af hverju ekki að gera það núna í þessu máli sem við erum með til meðferðar? Af hverju að flagga því strax að þetta komi fram á næsta þingi í máli sem allir vita að mun daga uppi? Allir vita það, ef það verður þá nokkurn tíma lagt fram. Áfram úr sama sameiginlega skilningi ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Gerðar verði sviðsmyndagreiningar fyrir komandi 2–3 ár þar sem tekið er tillit til mannfjöldaspár, stöðu á vinnumarkaði, stöðu innviða og metinn fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Unnið verður markvisst með aðgerðir miðað við þessar sviðsmyndir.“

Af hverju í veröldinni vill ríkisstjórnin ýta þessari vinnu svona langt aftur í tímann? Það er hreinlega alveg ótrúlegt að við séum enn þá á þeim stað að það liggi ekki fyrir greiningar á velferðarkerfum okkar, húsnæðismálum, menntakerfinu, þeim öllum, sem draga fram hvað við sem samfélag ráðum raunverulega við að taka við af fólki í neyð. Eins og þetta hefur verið undanfarin ár þá erum við ekki að gera neinum neina greiða með því hvernig staðið er að málum og við erum auðvitað að færast miklu meira í fang en við eigum nokkurn tímann möguleika á að ráða við. Það er auðvitað fremst í röðinni að ná utan um þá stöðu. Það verður ekki gert með því að dedúa með sviðsmyndagreiningar sem eiga að klárast á næsta kjörtímabili þegar þessi ríkisstjórn verður löngu hætt að skakklappast áfram.

Ég held að breiðu línurnar sem teiknast upp í þessu frumvarpi, hvernig um það er talað og fyrir því mælt, og þessum sameiginlega skilningi ríkisstjórnarflokkanna sem ríkisstjórnin sammæltist um á þessum degi — að þetta beri allt að sama brunni; að það eigi að fresta vandanum. Við sjáum það bara á breytingum frumvarpsins sem hér er rætt, svo að ég komi nú inn á það í fyrri ræðu minni. Breytingar sem voru gerðar frá því að frumvarpið var lagt fram í samráðsgátt og þar til það var lagt fram í þinginu 20. febrúar síðastliðinn virðast fyrst og fremst vera til þess ætlaðar að minnka bitið í þeim aðgerðum sem talað hefur verið fyrir.

Það eru sérstaklega tvær aðgerðir sem hæstv. ráðherra nefndi fyrr í dag að væri stigið til baka með frá því að málið fór inn í samráðsgátt og þar til það var lagt fram. Maður hlýtur að spyrja sig: Bíddu, af hverju erum við flest orðin sammála um áhrifin af þessum séríslensku málsmeðferðarreglum? Af hverju er verið að draga það á langinn að höggva á þessa hnúta og segja frá því að það eigi að leggja mál fram á kosningavetri og allir vita að umdeild mál sem þessi dagar uppi? Þetta þýðir raunverulega að málsmeðferðarreglurnar, þessar séríslensku málsmeðferðarreglur, þessir séríslensku seglar verða sumir hverjir við lýði yfir á næsta kjörtímabil. Þeir verða við lýði fram á árið 2026 hið minnsta. Við eigum eftir að sjá hvernig raðast í ríkisstjórn eftir þær kosningar.

Þótt ég ítreki það að ég styð málið og muni aðstoða með þeim ráðum sem ég á til til að koma því áfram og í gegn þá þykir mér of skammt gengið. Mér þykir ákveðin linka skína í gegn þegar skoðaðar eru breytingar frá samráðsgátt til framlagningar í þinginu. Ég held að hæstv. dómsmálaráðherra sé ekki að meta stöðuna rétt, meti ráðherrann það sem svo að það sé lítið mál að klára öll þau atriði sem eftir eru með framlagningu nýs frumvarps um útlendingalög á kosningavetri. Ég skal þá éta hatt minn ef það reynist rangt mat en ég held að ég fái mér eitthvað annað í matinn þann daginn.

Ég held að ég sé búinn að nefna það sem ég ætlaði helst að nefna í þessari fyrstu ræðu minni. Ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd og hlakka mjög til að taka málið til umfjöllunar og ítreka hér það sem ég sagði áðan að ég reikna með að leggja fram breytingartillögur við málið sem eru ætlaðar til þess að draga enn frekar úr þessum séríslensku málsmeðferðarreglum, því að það er það sem ég held að meiri hlutinn hér inni, þó að þingmenn segi það með mismunandi hætti, sé sammála um að sé að valda þeirri óstjórn sem verið hefur.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni áðan að vandamálið væri kerfið en ekki landamærin. (Forseti hringir.) Auðvitað er það bæði. Við verðum að ná stjórn á landamærunum (Forseti hringir.) til að ná stjórn á þessum mikla fjölda sem hingað sækir alþjóðlega vernd.