154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:01]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin kynnti á dögunum heildarsýn í útlendingamálum. Með henni er lagt upp með að taka utan um málaflokkinn með heildstæðum hætti og markmiðið er að stuðla að betri, skilvirkari og skýrari framkvæmd innan lands og bættri þjónustu til að renna styrkari stoðum undir stjórn útlendingamála. Með þessari heildarsýn er lögð áhersla á mannúð og virðingu og unnið gegn skautun í íslensku samfélagi sem er verkefni sem ég hygg að við séum öll sammála um að sé brýnt að við leggjum okkur fram við, þ.e. að vinna gegn skautun í íslensku samfélagi.

Það frumvarp sem við ræðum hér er einn af fjölmörgum liðum í áðurnefndri heildarsýn. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerði almennan fyrirvara við frumvarpið um leið og við samþykktum að málið færi til þinglegrar meðferðar. Þingflokkurinn telur ekki nægilegar upplýsingar liggja fyrir um áhrif fyrirhugaðra breytinga á gildistíma dvalarleyfa, svo sem hvort þau muni raunverulega auka skilvirkni við afgreiðslu mála eða hafa þveröfug áhrif og auka álag í stjórnsýslunni. Allt bendir til þess að fara þurfi oftar í gegnum umsóknir þar sem gildistími dvalarleyfa er styttur. Þá þarf að skoða gaumgæfilega í meðförum hv. allsherjar- og menntamálanefndar hver raunveruleg áhrif yrðu vegna fyrirhugaðra breytinga á réttinum til fjölskyldusameiningar. Við yfirferð málsins óskaði þingflokkurinn eftir aðgengilegum gögnum um samanburð á milli Norðurlandanna svo greina mætti fyrirhugað samræmi við ákvæði útlendingalaga á hinum Norðurlöndunum og telur mikilvægt að þessi gögn komi fram í þinglegri meðferð málsins. Þá telur þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að ekki liggi fyrir nægilega skýrar upplýsingar um áhrif á fjárheimildir til málaflokksins til lækkunar, eins og boðað hefur verið samfara þessum breytingum.

Að endingu, virðulegi forseti, telur þingflokkurinn að greina þurfi betur áhrif frumvarpsins á ólíka hópa umsækjenda um alþjóðlega vernd og réttarstöðu þeirra í þinglegri meðferð frumvarpsins og áður en það verður að lögum.

Sú heildarsýn í útlendingamálum sem ríkisstjórnin kynnti á dögunum er mikilvæg, virðulegi forseti. Þar er m.a. vísað til þess að horfa til hinna Norðurlandanna til samræmingar, ekki einvörðungu með því frumvarpi sem við ræðum hér heldur einnig með tilliti til inngildingar.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur áherslu á að mótuð verði heildarsýn á málaflokkinn með áherslu á aukinn fjölda kvótaflóttafólks, aukna aðlögun og inngildingu og aðgerðir til að tryggja jöfnuð og velsæld allra borgara samfélagsins. Hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur boðað tillögu til þingsályktunar um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks á næsta þingvetri en unnið er að heildstæðri stefnumótun henni til grundvallar þessa dagana. Þá mun hæstv. ráðherra einnig leggja fram frumvarp um móttöku flóttafólks og inngildingu innflytjenda á haustþingi.

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að hin Norðurlöndin standa okkur framar í regluverkinu hvað varðar móttöku og inngildingu þeirra sem til landsins leita. Við getum og verðum að stuðla að inngildingu þeirra sem vilja búa hér og þar er verk að vinna.