154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:47]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur kærlega fyrir andsvarið. Ég hlakka sömuleiðis mikið til að leggjast gaumgæfilega yfir þetta í allsherjar- og menntamálanefnd og ég hef allar forsendur til þess að trúa því að það verði hverjum steini velt í þeirri vinnu.

Hv. þingmaður segist skynja annan tón hjá Samfylkingunni, hjá undirritaðri í þessu máli, og ber það saman við þá umræðu sem átti sér stað fyrir ári síðan og vísar þar væntanlega til umræðunnar um samþykkt þeirra útlendingalaga sem voru til umfjöllunar þá. Ég kom nú reyndar mjög lítið inn í þá umræðu persónulega sem varaþingmaðurinn sem ég þá var en ég get alveg sagt ykkur það að væri hér til umfjöllunar frumvarp sem leiddi til þjónustusviptingu gagnvart fólki sem væri búið að fá umsókn sinni hafnað um alþjóðlega vernd eða önnur réttindi sem leiða hér af útlendingalögum og það væri alls kostar óljóst hvernig stjórnvöld hygðust breyta gagnvart þessum tiltekna umsækjanda — nei, ég verð að upplýsa hv. þingmann um það að ég sé ekki fyrir mér að geta greitt atkvæði með slíku fyrirkomulagi. En við erum ekki að ræða það hér í dag. (BHar: Ég spyr bara um þetta frumvarp.) — Um þetta frumvarp hins vegar er það að segja að það er bara alls kostar ótímabært að segja til um hvert við stefnum með því. Það er eitt og annað sem gæti aukið á skilvirkni, skipan í kærunefnd o.s.frv., en með fjölskyldusameiningar t.d. sé ekki alveg fyrir mér hvaða langtímamarkmiði það á að þjóna. Ég get alveg upplýst um það að ég get ekki sagt að ég sé sérstaklega jákvæð gagnvart þeim breytingum, ef það á að svara einhverju.