154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í gær var hér í þessum sal undarleg uppákoma þegar dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingu á útlendingalögum. Mótmælandi af erlendu bergi brotinn klifraði yfir svalahandrið á áheyrendapöllunum þannig að þingverðir, lögregla og Jón Gunnarsson þurftu að skerast í leikinn. Fyrir utan þingið hafa Palestínumenn mótmælt meintu aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í málefnum Palestínu. Einkennilegt hvað það fólk er vanþakklátt fyrir gestrisni Íslendinga. Það er auðvitað mikilvægt að halda því til haga að Ísland hefur tekið á móti fleiri Palestínumönnum en nokkurt annað land Norðurlandanna þrátt fyrir fámenni okkar.

Virðulegur forseti. Ég vil gera það að umfjöllunarefni mínu hér hversu mikilvægt það er að löggjafinn geti starfað óáreittur. Það gengur ekki að þingmenn verði fyrir aðkasti á leið í og úr vinnu eins og m.a. hefur verið fjallað um í fjölmiðlum að undanförnu. Það gengur ekki að gera þurfi hlé á þingfundi þegar verið er að mæla fyrir nauðsynlegri og tímabærri lagabreytingu á útlendingalögum til þess að girða fyrir séríslenskar reglur og samræma löggjöfina okkar hinum Norðurlöndunum. Við ráðum ekki við þennan fjölda. Innviðir bresta vegna álags. Á sama tíma og við verjum meiri peningum í málaflokkinn eykst óánægjan og gremjan. Þær breytingar sem nú eru lagðar fram á lögum um útlendinga verða að ná fram. Ef þingmeirihlutinn hefur ekki þrek til þess er hann að dæma sig úr leik.