154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.

726. mál
[14:56]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum er afar viðamikið og umfangsmikið og snertir á afar mikilvægum sviðum og þáttum í okkar þjóðlífi. Það kemur inn á hvaða umgjörð við höfum sem lýtur að fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi og svo hvaða viðmið, hvaða þætti við leggjum til grundvallar til að meta þjóðaröryggi og allsherjarreglu. Fyrir þjóð sem byggir alla sína velmegun á viðskiptum, frjálsum viðskiptum og mikilvægi frjálsra markaðshagkerfa er ástæða til þess að rýna þetta frumvarp vel hér í þinginu. En það er líka mikilvægt þegar við erum að ræða um mikilvægi viðskiptaumhverfis fyrir til að mynda erlendar fjárfestingar og hvernig á að búa það úr garði, að við séum líka í takt við það lagaumhverfi sem gildir hjá okkar helstu viðskiptalöndum eða bandalags- og vinaþjóðum, hvort sem það er innan Evrópusambandsins, OECD eða NATO.

Ég kom inn á það að þetta væri viðamikið mál og það ber þess merki. Greinargerð með frumvarpinu er um 70 blaðsíður. Það er líka umfangsmikið að því leytinu til að það sem lagt er til í frumvarpinu um gildissviðið, málsmeðferðarreglurnar, þau matsviðmið sem ráðherra skal taka mið af, er ekki einfalt og hér er augljóslega verið að samþætta margvísleg sjónarmið. Að þessu þarf að gæta nú við meðferð þessa máls.

Það er mikilvægt að hafa í huga þegar við erum að ræða um frumvarp eins og þetta sem takmarkar með einhverjum hætti, gefur stjórnvöldum heimild til inngrips inn í viðskipti, frjáls viðskipti, erlenda fjárfestingu, allt frá tilkynningarskyldu og svo í öðru lagi viðskiptaráðstöfun sem er samþykkt með skilyrðum frá ráðherra og yfir í að ráðherra einfaldlega banni tilteknar ráðstafanir, þá er um að ræða inngrip inn í gríðarlega mikilvæg réttindi, stjórnarskrárvarin réttindi sem varða eignarrétt, varða atvinnufrelsi. Þá verður löggjöfin að vera þannig úr garði gerð, þegar um er að ræða takmarkanir sem vegna þjóðaröryggis eða almannareglu, að það séu málefnaleg sjónarmið um að skerða eða takmarka þau réttindi sem stjórnarskráin kveður á um og hún sé skýr, hún sé afmörkuð og þær heimildir sem stjórnvöldum eða framkvæmdarvaldinu er falið séu hlutlægar og almennar reglur.

Á móti kemur að við lestur þessa frumvarps koma í ljós ýmis matskennd viðmið. Það er ekki nægjanlega afmarkað í 3. gr. frumvarpsins, sem kemur að viðkvæmum sviðum, hvaða svið nákvæmlega teljast viðkvæm af því að ráðherra er eftirlátið að setja reglugerð þar sem það er útlistað nánar hvað er átt við. Þetta er ákveðið vandamál. Það verður að játa að löggjafinn getur farið langt í því að skilgreina í hörgul hvað teljast t.d. viðkvæm svið. Það verður líka að játa að réttarþróunin á þessu sviði, fjárfestingarýni, er tiltölulega nýtilkomin og allt í kringum okkur er löggjöf nágrannaríkja okkar að taka breytingum. Við sjáum ekki alveg fyrir framtíðina. Að þessu leytinu til finnst mér ekkert óeðlilegt að nánari útfærsla sé í reglugerð. En þetta lýsir áskoruninni sem við erum að fást við með þetta frumvarp. Að hversu miklu leyti getur löggjafinn haft skýrar almennar viðmiðanir og að hversu miklu leyti þarf að eftirláta ráðherra og stjórnvöldum mat á þessum sviðum?

Það er rétt sem kom hér fram og hæstv. forsætisráðherra reifaði ágætlega að málið hefur tekið töluverðum breytingum frá því að það var birt í samráðsgátt fyrir tæpum tveimur árum síðan. Þar bárust 11 umsagnir frá ýmsum hagaðilum í atvinnulífinu, líka sprotafyrirtækjum og hópi frumkvöðla. Í stuttu máli voru þær umsagnir við þau drög að frumvarpi að öllu leyti, ef ég man rétt, verulega neikvæðar. Við þessu hefur verið brugðist eins og rakið er í 5. kafla greinargerðar við frumvarpið. Gildissviðið hefur verið þrengt, sérstaklega varðandi skyldurýni sem átti að ná til mikilvægrar tækni. Þetta hefur þýðingu fyrir sprotafyrirtæki og nýsköpunarumhverfið sem skiptir máli og ég kem kannski inn á aðeins seinna. Þá er verið að gera ráð fyrir því að viðkvæm svið verði skilgreind nánar í reglugerð. Það hefur kosti og ókosti eins og ég ætla líka að koma inn á á eftir. Málsmeðferðinni hefur verið örlítið breytt. Þar með er ekki sagt að hún hafi endilega verið einfölduð mikið svona við fyrstu sýn. En nú er betur aðgreint hvað telst til stuttra tilkynninga, sem getur haft mikla þýðingu fyrir einmitt sprotafyrirtæki og nýsköpunargeirann, og hvað telst til lengri tilkynninga. Eins er þá afmarkað þegar um er að ræða lengri tilkynningar í hvaða fasa málið á að fara. Einnig hefur verið opnað á það til þess að auka gagnsæi eða fyrirsjáanleika að aðilar sem undir lögin eiga að heyra geta óskað eftir foráliti ráðherra um hvort ráðstöfun falli undir tilkynningarskyldu. Heilt yfir eru þær breytingar sem eru raktar í 5. kafla greinargerðarinnar um samráð að mínu mati til bóta.

Hæstv. forsætisráðherra rakti hér líka þá þróun sem hefur átt sér stað á erlendum vettvangi. Þá er fyrst og fremst vísað til þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað innan OECD og Evrópusambandsins því samfara. Þetta eru okkar viðskipta- og samstarfsþjóðir. Það má líka koma inn á það að stór og mikilvægur þáttur í þessu frumvarpi snýr að þjóðaröryggi og það er horft til þess hvað ríki sem tilheyra Atlantshafsbandalaginu hafa verið að gera á þessum vettvangi. Það er ástæða til að taka undir orð hæstv. forsætisráðherra, það getur skipt miklu máli að löggjöf okkar á þessu sviði sé í samræmi við það sem aðrar bandalags- og vinaþjóðir og viðskiptaþjóðir eru að gera. Það getur verið til þess fallið að auka tiltrú erlendra fjárfesta frá þessum löndum á íslenskt regluverk, á íslenska stjórnsýslu, það getur gefið þeim fyrirsjáanleika um það hvernig málsmeðferðinni verði háttað. En ef þetta er lagt hér til grundvallar, frú forseti, þá skiptir líka máli að okkar löggjöf um þetta efni sé ekki með séríslenskum reglum. Það mun flækja málið fyrir erlenda fjárfesta eða draga úr tiltrú þeirra á því hvernig stjórnsýslunni er háttað og til hvers er ætlast af þeim þegar þeir eru að velta fyrir sér fjárfestingarkostum hér á Íslandi. Þetta er mikilvægt atriði.

Það ber líka að hafa í huga, og greinargerðin ber þess merki og kom ágætlega fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra, að frumvarpinu er ekki ætlað að takmarka erlenda fjárfestingu með almennum hætti. Það er á tilteknum sviðum undir tilteknum skilyrðum sem stjórnvöld geta gripið inn í og gengið hvað lengst, bannað tiltekna fjárfestingu. Þá er rétt að geta þess að erlend fjárfesting á Íslandi er mjög lítil. Hún er ekki mikil. Það er mikið kappsmál fyrir íslenska þjóð og íslenskt samfélag, íslenskt atvinnulíf, að við greiðum götu erlendra fjárfestinga eftir föngum. Til þess hníga öll rök. Það er vissulega áhyggjuefni, eins og rakið er í greinargerð frumvarpsins, að ef frá er dregin fjárfestinga erlendra aðila í áliðnaðinum og lyfjaiðnaðinum þá erum við ekki með mikla erlenda fjárfestingu. Þær spurningar sem einna helst vakna við meðferð þessa máls varða það að rýna aðeins betur samhliða hvað veldur þessu og hvað er hægt að gera til að treysta regluverkið að öðru leyti til að greiða götu erlendra fjárfestinga sem við viljum fá inn í landið, erlendra fjárfestinga sem teljast ekki vera ógn við þjóðaröryggi eða allsherjarreglu. Það er mikilvægt að hafa þetta atriði í huga samhliða því að við ræðum efnisatriði þessa frumvarps.

Það sem ég vil koma inn á, frú forseti, við þessa 1. umræðu og upplýsa um er að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins við yfirferð á þessu frumvarpi og frá því að frumvarpið kom fyrst fram í samráðsgátt gerir fyrirvara um nokkur atriði. Það er fyrst almennur fyrirvari og svo nokkur atriði sem ég vil koma inn á og þarfnast nánari skoðunar og athugunar við í þinglegri meðferð málsins.

Almennt er mikilvægt að frumvarpið gangi ekki lengra í takmörkunum á erlendum fjárfestingum en nauðsynlegt er til að ná markmiðum frumvarpsins og gætt sé að því að hafa ákvæði laganna eins skýr og hlutlæg og unnt er. Frumvarpið felur nefnilega í sér í grunninn takmörkun á samningsfrelsi, á stjórnarskrárvörðum mannréttindum sem lúta að eignarréttindum og atvinnufrelsi. Það verður því að stíga mjög varlega til jarðar þegar lögfestar eru takmarkanir á framangreindum réttindum og gæta verður að því að skilyrði stjórnarskrárinnar um almannahagsmuni séu uppfyllt. Þá verður einnig að líta til hinnar stjórnskipunarlegu meðalhófsreglu um að ekki skuli ganga lengra við setningu íþyngjandi lagaákvæða en nauðsynlegt er hverju sinni. Í því felst að ef vafi er uppi um það hvort almannahagsmunir krefjist tiltekinnar íþyngjandi lagasetningar þá ber að túlka það borgurunum í hag.

Það eru líka nokkur efnisatriði sem ég ætla að reifa hér og þarfnast sérstakrar skoðunar við að mati þingflokksins. Það er í fyrsta lagi skilgreining á viðkvæmum sviðum. Í 3. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði sem hamla erlendum fjárfestingum, nánar tiltekið í 2., 3. og 6. tölulið þar sem kveðið er á um starfsemi sem tengd er útvegun eða framleiðslu á mikilvægum aðföngum, nýtingu tiltekinna náttúruauðlinda og framleiðslu á mikilvægri tækni.

Ef við skoðum aðeins nánar 6. tölulið 3. gr., þar sem kveðið er á um framleiðslu eða þróun á annars konar mikilvægri tækni en fellur undir aðra töluliði þessarar greinar, þá er þetta nokkuð opið ákvæði. Þetta er varnagli, ef eitthvað fellur ekki undir fyrstu fimm töluliðina er til öryggis bara skellt inn opnara ákvæði í 6. tölulið. Það getur reynst erfitt í framkvæmd að afmarka nánar við hvað nákvæmlega er átt.

Svo eru það atriði sem snúa að frumkvæðisrýni ráðherra. Það eru atriði sem veita sennilega of víðtækar heimildir. Það þarf að skoða betur matsviðmiðin í 14. gr., hvort hægt er að skilgreina þau aðeins nánar. Svo er það viðmiðunarfjárhæð í 3. mgr. 4. gr. fyrir undanþáguna, að það sé rétt að setja þá fjárhæð í lög en ekki eftirláta ráðherra það í reglugerð. (Forseti hringir.) Að síðustu held ég að það sé gott fyrir meðferð málsins að drög að reglugerð liggi fyrir áður en að það verður afgreitt hér sem lög.